139. löggjafarþing — 130. fundur,  19. maí 2011.

innflutningur dýra.

668. mál
[17:46]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Eins og fram hefur komið er þetta mál mjög umdeilt í þinginu og mun verða það, ég held að það sé ljóst. Nokkrar hliðar á málinu hafa verið dregnar fram nú þegar og vil ég taka undir þá gagnrýni sem fram hefur komið.

Það er margt sem veldur áhyggjum í sambandi við frumvarpið og þá orðræðu sem hér hefur verið. Eitt af því sem undirritaður hefur áhyggjur af er sú áhætta sem flutningsmenn, eða í það minnsta 1. flutningsmaður málsins, eru tilbúnir að taka, þ.e. að áhættan geti verið innan marka á að rýmka til við innflutning á gæludýrum. Ef við leyfum okkur augnablik að tengja þetta ekki við landbúnaðinn, ekki við búfjárstofnana, sem er að mínu viti óhjákvæmilegt, heldur tengja þetta í raun við gæludýraeigendur og þá sem eru í einhvers konar sporti með gæludýr eða stunda sport eins og hestamennsku, þá trúi ég því ekki að sá fjöldi og það fólk sem er í slíkum greinum, hvort sem það er hobbí eða einhvers konar atvinnumennska eða hvað það nú er, sé tilbúið að taka þá áhættu að t.d. hundaæði berist til Íslands. Í frumvarpinu er reyndar gert ráð fyrir að hægt sé að takmarka þá áhættu að einhverju leyti. Ef litið er til áhættusækni frumvarpsflytjanda hljótum við að geta sagt að ekki sé hægt að útiloka að slíkt berist hingað til lands.

Ég hef líka vissu fyrir því eftir að hafa rætt við dýralækni að sjúkdómar geta borist auðveldlega frá gæludýrum yfir í búfénað. Ef það er þannig eins og bent hefur verið á og tekið var dæmi um og vitnað í dr. Margréti Guðnadóttur, veirufræðing og fyrrverandi prófessor í sýklafræði, að hingað var flutt inn búfé sem var með sjúkdóm sem ekki var búið að gera grein fyrir í vegabréfi þess búfénaðar, hlýtur hið sama að gilda um gæludýrin.

Eitt er það sem hefur ekki mikið verið nefnt, þ.e. þær reglur sem gilda innan Evrópusambandsins. Þar er það þannig að gæludýr geta fengið gæludýravegabréf. Þar geta plöntur líka fengið plöntuvegabréf. Við þekkjum það, Íslendingar, að fyrir nokkrum árum var kartöfluútsæði flutt hingað inn sem innihélt svokallað hringrot. Það stóð ekki í vegabréfinu með kartöflunum að hringrot væri í þeim. Nú er staðan sú að hringrot er vandamál í kartöflurækt og við getum ekki flutt út kartöflur til Evrópusambandsins vegna þess að okkur áskotnaðist hringrot frá Evrópusambandinu. Ástæðan er vitanlega sú að Evrópusambandið er að reyna að eyða þessum ófögnuði úr kartöfluræktun hjá sér. Þarna var vegabréf upp á kartöflur sem innihéldu sjúkdóm.

Þó að þetta kunni að virðast undarleg umræða um kartöflur og plöntur, dýr og búfénað, er þetta í rauninni sama kerfið sem við erum að ræða um. Við erum að ræða um það að gefið er út ákveðið heilbrigðisvottorð sem kallað er vegabréf, hvort sem það er gæludýr, plöntur eða annað. Dæmin sýna að það er ekki óskeikult.

Annað verð ég að nefna í þessari umræðu. Mér finnst mjög undarlegt og sérkennilegt að þetta mál skuli koma fram núna mjög stuttu eftir að haldinn var rýnifundur varðandi umsókn Íslands að Evrópusambandinu, rýnifundur þar sem farið var yfir innflutning á lifandi búfé og plöntum. Vissulega var ekki verið að tala um gæludýr en talað var um lifandi plöntur og búfénað. Þegar þeir fluttu mál Íslands fyrir Evrópunefndinni fannst mér þeir standa sig ágætlega að draga upp þá mynd að Íslendingar vilja alls ekki rýmka fyrir innflutningi á búfénaði eða plöntum.

Því velti ég því fyrir mér hvort þetta frumvarp, sem er vitanlega náskylt þessari umræðu, er einhver stefnubreyting eða hvort sú ágæta ræða sem flutt var á þessum rýnifundi fyrir hönd Íslands, að stjórnvöld ætli sér ekkert að gera með hana og reyni hreinlega að rýmka til því að það kom líka fram á þessum rýnifundi af hálfu Evrópusambandsins að ekki eru í boði neinar varanlegar undanþágur varðandi innflutning á plöntum eða dýrum. Varanlegar undanþágur voru ekki í boði. Það kom skýrt fram hjá forsvarsmanni Evrópusambandsins á þeim fundi. Það vill nú svo skemmtilega til að ég sat fundinn, ákvað að hlusta og hlýða á hvernig þetta gengi fyrir sig. Síðan hafa verið skrif um þetta í blöðum, m.a. hafa Bændasamtökin gert grein fyrir afstöðu sinni til þessa.

Þar af leiðandi er ekki hægt að fallast á þetta mál eða lýsa yfir stuðningi við það, jafnvel í 1. umr. Þetta er þannig mál, frú forseti, að í rauninni er ekki hægt að gefa því einu sinni séns því að innihald þess er mjög skýrt. Innihaldið er í þá veru, eins og kemur fram í lokasetningum greinargerðarinnar með frumvarpinu, að taka upp reglur Evrópusambandsins, rýmka fyrir frjálsa för gæludýra og auka þannig á frelsi, sem er mjög fallegt að segja og vel meint en setur um leið — og ég ætla að leyfa mér að segja það bara eins og ég hugsa það — dýralíf á Íslandi í enn meiri hættu en fyrir er. Auðvitað er það rétt sem fram hefur komið hjá hv. flutningsmanni frumvarpsins að veruleg hætta er í dag. Við höfum séð afleiðingar af slóðaskap manna t.d. hvað varðar sjúkdóma í hrossum, þegar menn í þeirri grein sem veltir milljörðum á Íslandi eru að stefna henni í hættu með kæruleysi sem snýr að reiðtygjum. Hvað vitum við hvað getur gerst ef við förum að einfalda og auðvelda innflutninginn á dýrunum sjálfum?

Það kann líka að vera að ferlið í dag útiloki ekki að með gæludýrum geti borist sjúkdómar. Það eru þá varnaðarorð, ég ætla bara að taka það sem varnaðarorð en þá þarf kannski að endurskoða það kerfi á einhvern hátt. Þegar við vitum að sjúkdómar geta borist frá gæludýrum yfir í búfénað getur ekki verið alvara í því að rýmka þær reglur, ekki síst þegar við höfum dæmin fyrir framan okkur um að það er ófullnægjandi eins og staðið er að þessu í það minnsta í dag.

Maður hefur ákveðinn skilning á þeim rökum fyrir þessu sem snúa að aðstoð og björgun. Þau óþægindi sem kunna að fylgja því að geta ekki tekið dýrið með sér, ég verð að vera hreinskilinn í því, þau eru lítils háttar, ég ætla bara að segja það, miðað við þá miklu áhættu sem tekin er varðandi dýrahald á Íslandi og ekki síst, ef við tökum þetta nú alla leið, ef við segjum að frumvarp þetta gæti verið undanfari að frekari rýmkun reglna er snýr að plöntum og búfénaði því að hugmyndafræðin er nákvæmlega sú sama.

Hér er sagt í greinargerð að lagt sé til að ekki þurfi að einangra gæludýr „svo framarlega sem með þeim fylgi nauðsynleg heilbrigðis- og upprunavottorð sem staðfesta nauðsynlega bólusetningu“ o.s.frv. Það er hins vegar spurning sem við hljótum að spyrja okkur hvort við getum nokkurn tímann, sjálfsagt getum við það aldrei, búið til kerfi sem er svo skothelt að við getum komið í veg fyrir að sjúkdómar eða eitthvað því um líkt berist hingað til lands.

Þegar frumvarp er lagt fram ræða þingmenn oft við fólk sem tengist efni þess á einhvern hátt, í þessu tilfelli fólk sem er kannski í hundarækt eða einhverju slíku. Auðvitað er ekki hægt að alhæfa neitt í því en innan þeirra raða eru aðilar sem hræðast þetta mjög. Þeir hafa ef til vill náð árangri með sín dýr, búnir að fara í gegnum þann prósess sem fyrir er. En ugglaust er hægt að finna umsagnaraðila sem munu taka þessu fagnandi, sjá sér aura í því að geta flutt hingað inn einhverjar furðuskepnur til að gera jafnvel að gæludýrum. En auðvitað er það eitthvað sem við viljum ekki.

Það var ágætt sem kom fram hjá hv. flutningsmanni áðan og ég nefndi einnig, þ.e. þegar verið er að koma ólöglega með alls konar kvikindi inn í landið. Það er vitanlega áhyggjuefni þegar slíkt gerist.

Frú forseti. Mál þetta fer væntanlega til sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar þar sem töluverð þekking er á málum sem þessum. Ég held ég geti ekki of oft ítrekað varnaðarorð mín varðandi frumvarpið vegna þess að hagsmunir heildarinnar að mínu viti eru það miklir að ekki er hægt að taka slíka áhættu. Ég hef ekki á takteinum neina lausn fyrir þá aðila sem þurfa á aðstoð að halda. Ég ætla ekki að gera lítið úr vinnu björgunarmanna okkar sem hætta lífi sínu þegar þeir fara og bjarga fólki erlendis, þeir hafa staðið sig eins og hetjur. En ég held að það sé ekki heldur hægt að réttlæta áhættuna af því að þeir fari út með sín vel þjálfuðu dýr og komi með þau aftur upp á þetta. Auðvitað er slæmt ef það er þannig, sem ég hef bara ekki þekkingu á, að dýrin þoli það illa að vera sett í það kerfi sem er í dag hjá okkur, einangrun og slíkt. Það er að sjálfsögðu mjög vont ef þau missa hæfileikana að einhverju leyti með því. En við getum ekki fórnað að mínu viti hinum stóru hagsmunum.

Ég held líka að það sé ekki spennandi fyrir gæludýraeiganda, hver sem það nú er, að hafa fengið að fara með dýr sitt úr landi, komið svo með það aftur til Íslands en síðan kæmi upp landlægur sjúkdómur sem gæti mögulega gerst — við höfum dæmi um það að ekki er hægt að koma í veg fyrir allar pestar, það er bara þannig — að hafa það á samviskunni að slíkt hafi í raun borist með því gæludýri.

Ég held að það sé mikilvægt fyrir okkur, og vil bara segja það hér, að sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd afgreiði þetta með skjótum hætti neikvætt. Ég held að það sé afar mikilvægt.

Það þarf líka að svara því, frú forseti, hvernig frumvarpið getur komið heim og saman við þá vinnu eða orðræðu sem manni sýnist að sé í gangi varðandi aðildarumsókn að Evrópusambandinu er snýr að innflutningi á lifandi plöntum og búfénaði því að málin eru vitanlega náskyld.

Frú forseti. Tími minn er liðinn. Ég mun því ekki segja meira um málið að sinni og treysti sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd til þess að taka málið og gæta hagsmuna Íslands, náttúrunnar og dýranna og þeirra sem hafa atvinnu og tekjur af því að starfa við umhirðu og ræktun dýra og hafa það að leiðarljósi.