139. löggjafarþing — 130. fundur,  19. maí 2011.

brottfall laga um ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

768. mál
[18:11]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum frumvarp til laga sem ég hefði reyndar kosið að flutt hefði verið af ríkisstjórninni, að ríkisstjórnin hefði tekið sig saman í andlitinu og komið með slíkt mál og sýnt meiri hluta þjóðarinnar, sem felldi Icesave-samningana hvað eftir annað, að hún ætlaði að breyta um stefnu og standa með okkur sem höfum barist gegn þessu. En það kom ekki og því vil ég þakka hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur fyrir frumkvæðið að því að flytja þetta mál og erum við allir þingmenn Framsóknarflokksins meðflutningsmenn á málinu. Ég hygg að við málið sé reyndar mjög breiður stuðningur á þingi þó svo að ríkisstjórnin hafi ekki haft frumkvæði að því að flytja málið.

Það gengur að sjálfsögðu ekki að við séum með í gildi lög sem geta mögulega haft þau áhrif eða eru með opinn möguleika á því að Bretar og Hollendingar geti sótt hér fjármuni eftir að við höfum gengið í gegnum allar þær umræður og allt sem gengið hefur á í samfélaginu til að stöðva þetta ólukkans máls sem hæstv. núverandi fjármálaráðherra fór fram með af miklu harðfylgi sumarið 2009.

Margt hefur komið í ljós á þessum tíma, frú forseti. Það er ljóst að sagan af Icesave hefur ekki öll verið sögð og því er mikilvægt og ég vil nota tækifærið og árétta það að tillaga sem hér hefur verið lögð fram um að farið verði yfir Icesave-málið og það rannsakað frá A–Ö, þ.e. hvernig stjórnvöld hafa haldið á því máli, verði afgreidd hið fyrsta. Ef ég hef skilið rétt það sem ég las í gærkvöldi í skýrslu hæstv. fjármálaráðherra um endurreisn bankanna þá kemur þar m.a. fram að þegar verið var að endurreisa bankana hafi ríkisstjórnir Bretlands og Hollands komið að samningaviðræðum. Maður veltir þá fyrir sér hvers vegna þeir aðilar hafi verið þar og hvaða hagsmuna þeir hafi verið að gæta og hvort svo hafi verið að í framhaldinu hafi orðið breyting á Icesave-umræðunni af hálfu ríkisstjórnarinnar. Allt þetta þurfum við að skoða og munum eflaust fá svör við einhvern tímann.

Hins vegar er ekki hægt að fara í þessa umræðu án þess að gera að umtalsefni þá umpólun sem orðið hefur á málflutningi hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra í þessu máli. Raunar vildi ég gjarnan að fleiri úr stjórnarliðinu hefðu tekið þá spólu sem skipt var um og væru að spila hana á sama hátt, því að hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra verður, held ég, þessa dagana seint hælt nóg fyrir þann málflutning sem hann hefur gagnvart Eftirlitsstofnun ESA þegar kemur að samskiptum við stofnunina og því bréfi sem sent var út vegna kæru stofnunarinnar gagnvart Íslendingum.

Það hefur vitanlega komið í ljós og kemur fram í því bréfi sem sent var til ESA að sá málflutningur sem andstæðingar Icesave-samninganna hafa haft uppi reyndist réttur og hann er ágætlega staðfestur í því bréfi. Því sakna ég þess, frú forseti, að hinir hörðu talsmenn og fylgismenn þess að leggja á þjóðina þær skuldbindingar sem þar átti að gera skuli ekki ganga fram fyrir skjöldu og tala sama máli og hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra hefur kosið að gera, tala því máli sem fram kemur í bréfinu til ESA, og segja við meiri hluta þjóðarinnar sem hafnaði þeim samningum sem þessir sömu aðilar vildu svo gjarnan að yrðu samþykktir að þeir hefðu haft rangt fyrir sér, að réttara hefði verið að standa að málum eins og þorri þjóðarinnar gerði og eins og þingmenn Framsóknarflokks og Hreyfingarinnar og nokkrir sjálfstæðismenn gerðu í þinginu. Þetta sýnir okkur að þegar við stöndum saman gegn miklu óréttlæti og rökstyðjum mál okkar vel er hægt að sigra Golíat.

Ég vil líka nefna og er ekki hægt annað, frú forseti, að ekkert af þeim hrakspám sem tröllriðu umræðu í þessu máli hafa ræst. Ég held að ég geti fullyrt það. Það er hins vegar ánægjulegt að ráðherrar ríkisstjórnarinnar skuli ferðast erlendis talandi um að þeir séu að passa það að lánshæfismat Íslands lækki ekki o.s.frv. og berja sér á brjóst og þakka sér fyrir að það hafi ekki gerst.

Á hvað var bent í umræðunni um Icesave-samningana? Að vísasta leiðin til að passa lánshæfismatið væri að fella þá samninga, að taka ekki á sig auknar skuldbindingar. Gæti verið að ástæðan fyrir því að lánshæfismatið er þó ekki verra en það er sé einmitt vegna þess að þorri þjóðarinnar hafnaði því að taka á sig auknar skuldbindingar og auka þar með skuldir ríkissjóðs?

Frú forseti. Það er mjög mikilvægt að þetta frumvarp fái örugga og hraða ferð í gegnum þingið. Fyrir því eru mörg dæmi. Þetta er gríðarlega mikilvægt mál. Það er því mikilvægt að afnema fyrstu Icesave-lögin úr gildi. Það er mikilvægt að gera það strax þannig að enginn vafi sé á því hvað Íslendingar samþykktu ekki að taka á sig og setja á sínar herðar. Það er mikilvægt að við tökum af skarið skýrt og skorinort í þessu máli.

Ég held að allir sem komu að samningu þeirra laga sem við þurfum að nema úr gildi hljóti að hafa skilning á því að það sé nauðsynlegt, því að við viljum ekki hafa neina glugga opna þar sem rignt getur inn á okkur þegar við erum búin að koma okkur í öruggt skjól. Ég tel að við séum búin að koma okkur í nokkuð öruggt skjól. Ég hef enga trú á að hart verði sótt að Íslendingum vegna þessa máls á næstu missirum því að það hefur sýnt sig og sannað, sem reyndar flestir hafa haldið fram, að þær eignir sem í hinum fallna banka eru muni líklega duga fyrir obbanum eða nánast öllu sem Bretar og Hollendingar hafa krafist.

Ég hvet þingmenn og alla sem hafa áhuga á bankamálunum og Icesave að lesa skýrslu fjármálaráðherra því að þar koma fram afar athyglisverðar upplýsingar varðandi þetta ferli og hvernig það snertir endurreisn bankanna. Ég gleymdi, frú forseti, að nefna áðan að þegar ég sá að ríkisstjórnir Breta og Hollendinga hefðu komið að samningagerð þegar verið var að endurreisa bankana sá ég að þar voru líka fulltrúar sveitarfélaga í Bretlandi. Það undirstrikar að sjálfsögðu það að reynt var að tengja endurreisn bankanna með ákveðnum hætti að lausn Icesave-deilunnar. Því hljóta að vakna ýmsar spurningar í framhaldinu um hvort endurreisn bankanna hefði getað tekist betur ef ríkisstjórn Íslands sem tók að sér að endurreisa bankana hefði staðið í lappirnar og staðið við það ferli sem hafði verið ákveðið að standa að þegar ljóst var að endurreisa þyrfti bankana og fjármálakerfið.

Margir hafa komið að máli við okkur eftir að þetta frumvarp kom fram og eftir umræðu sem hér varð vegna fyrirspurnar sem borin var upp fyrir nokkrum dögum um þetta mál. Ljóst er að margir höfðu ekki áttað sig á að þessi lög væru í raun enn í gildi og möguleg áhætta í því fólgin. Því er mikilvægt að við svörum því ágæta fólki sem hafði af þessu áhyggjur sem og öðrum með því að hraða málinu sem allra mest.

Icesave-málið allt er að sjálfsögðu ein sorgarsaga, frú forseti. Þetta er saga einkaframtaks sem sprakk í andlitið á þeim sem til þess stofnuðu. Það átti að reyna að koma skuldum einkafyrirtækja yfir á almenning. Almenningur brást við og sagði nei. Íslendingar hafa gefið öðrum þjóðum fordæmi í því að standa uppi í hárinu á fjármálaveldinu. Því miður eru dæmi um önnur lönd, svo við nefnum Írland og jafnvel Grikkland, sem hafa ekki getað farið þá leið sem hér var farin. En við komumst að mínu viti alltaf að sömu niðurstöðunni eða sama punktinum; það er verið að bjarga erlendum bönkum með því að láta þjóðir heimsins, litlu þjóðirnar eða þær þjóðir sem standa höllum fæti, hvort sem það eru Írar, Grikkir, Íslendingar eða einhverjar aðrar, með því að láta almenning taka á sig að borga það tap sem stóru bankarnir í Evrópu og jafnvel annars staðar hefðu annars þurft að taka á sig.

Frú forseti. Ég vona svo sannarlega að Íslendingar hafi verið öðrum þjóðum gott fordæmi þegar kemur að þessu.