139. löggjafarþing — 130. fundur,  19. maí 2011.

brottfall laga um ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

768. mál
[18:23]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur fyrir að vekja athygli á þessu máli því að ég held að það megi segja að þetta hafi nánast gleymst. Eins stórt og Icesave-málið er búið að vera í meira en tvö ár ætla menn að gleyma að þrífa upp eftir sig. En nú er komið að vorhreingerningu í lagasafninu. Reyndar kann að vera að einhverjum þætti við hæfi að láta þessi lög standa eins og minnisvarða í lagasafninu um það sem stefndi í en ég held að það sé ekki þess virði. Ég held að það færi betur á því að taka til í lagasafninu þó að það sé mjög áhugavert að lesa þessa samninga núna og verði eflaust áhugavert að lesa þá í framtíðinni ekki síður og þeim mun áhugaverðari sem tíminn líður.

Hvað varðar áhættuna af því að hafa þetta inni vil ég taka fram að ég er þeirrar skoðunar að Bretar og Hollendingar séu búnir að hafna því tilboði ríkisstjórnarinnar sem í þessum lögum fólst en það breytir þó ekki því að það er engin ástæða til að hafa þetta inni og þar af leiðandi búa til hættuna á því að menn fari að að reyna að gera kröfur í krafti þessara laga því að við höfum séð það svo ótal oft í þessu máli hversu langt menn geta seilst í kröfugerð sinni og þá þarf ekki að vera að lagabókstafurinn eða hinn lagalegi réttur ráði endilega för.

Hvernig færi t.d. ef spilaborg ríkisskulda og bankaskulda í Evrópu hryndi, og þá yrði væntanlega mikið efnahagslegt uppnám í álfunni og af því uppnámi leiddi að Bretar og Hollendingar væru í pólitískum tilgangi að gera kröfu á Íslendinga aftur vegna Icesave, vegna þessara laga þó ekki væri nema til að sýnast pólitískt heima fyrir? Vegna þess að þegar menn áttuðu sig á því að Evrópuríkin sem hafa skuldsett sig um of mundu ekki geta staðið undir þeim kröfum sem á þeim hvíla og áhrifin af því á ríkið og bankakerfi þessara landa kæmu í ljós er veruleg hætta á því að menn muni vilja blanda öðrum ríkjum inn í það, löndum eins og Íslandi sem sleppur vonandi þokkalega í gegnum þá atburðarás sem þá fer af stað efnahagslega, sérstaklega vegna þess að Ísland fór aðra leið en önnur lönd varðandi vanda sinna banka, lét þá sem sagt fara í þrot í stað þess að setja skuldir bankanna yfir á almenning. Þegar afleiðingarnar af því að menn hafi ekki farið þessa leið í öðrum Evrópuríkjum koma í ljós er sem sagt fyrir hendi sú pólitíska hætta að stjórnvöld í Bretlandi og Hollandi muni vilja draga Íslendinga inn í þetta með sér með þeim rökum að þeir séu ekkert of góðir til að taka á sig sams konar kröfur og ætlast sé til að hinar Evrópuþjóðirnar greiði. Við höfum þegar séð votta fyrir slíkri umræðu í tengslum við þetta mál meðal annars frá, og það er sérstakt áhyggjuefni, Eftirlitsstofnun EFTA og það er alveg mál út af fyrir sig hvers vegna ekki hefur verið farið fram á að sú stofnun geri grein fyrir því hvernig sérstaklega forstöðumaður stofnunarinnar tjáði sig um þetta mál löngu áður en kom að því að þau tækju afstöðu til þess hjá ESA.

Þetta er ein ástæðan, þ.e. að losna við þau óþægindi sem kunna að fylgja því ef menn reyna að vekja þetta mál upp aftur þó að ég ítreki að ég telji þá ekki hafa lagalegan rétt þessu samfara.

Hitt er að það er ekki eðlilegt að láta liggja inni í lögum landsins úrelt lög, lög sem eiga ekki lengur við. Reyndar eru, held ég, allt of mörg dæmi um slíkt. Þetta er kannski áminning um að við þurfum að fara að huga að grisjun á lagasafninu eða lagahreinsun vegna þess að oft og tíðum eru uppi einhverjar aðstæður, jafnvel tímabundnar aðstæður, sem menn bregðast við með lagasetningu, lögum sem eiga svo kannski ekkert endilega við þegar fram í sækir. Þau bætast í lagasafnið og lagasafnið verður alltaf stærra og stærra. Á meðan þetta var fyrst og fremst geymt í bókum sáu menn hvernig bækurnar urðu sífellt sverari, þykkari. Nú leita menn aðallega í lagasafnið á netinu þannig að það er kannski eins augljóst að það fer stöðugt stækkandi. Stöðugt stærra og flóknara lagasafn þýðir í rauninni að það er meira og meira kerfi sem þegnarnir þurfa að búa við og takast á við. Auðvitað er kerfi og sú vernd sem felst í lögum nauðsynleg en öllu má ofgera. Nú er staðan orðin sú að flækjurnar eru í mörgum tilvikum orðnar slíkar að það er orðið erfitt að vera borgari í landinu, t.d. fyrir þá sem vilja stofna lítið fyrirtæki, byggja upp atvinnu. Þeir þurfa, sama hversu lítið fyrirtækið er, nánast að ráða sér starfsmann sérstaklega til að fást við kerfið. Ég held að færi vel á því að við færum í gegnum lagasafnið almennt og reyndum að fella úr gildi þau lög sem ekki eiga lengur við og gera lögin skýrari og aðgengilegri.

Aðrar Norðurlandaþjóðir eru allar með þá stefnu að það beri að einfalda lagasafnið og fækka blaðsíðunum í því. Við ættum að taka okkur það til fyrirmyndar og það ætti vonandi ekki að verða núverandi ríkisstjórn, sem reynir enn þá að kalla sig norræna velferðarstjórn, vandamál að líta til Norðurlandanna hvað fyrirmyndir varðar.

Víkjum þá aftur af Icesave-málinu. Samkvæmt nýjasta mati sem birt var í dag gera menn ráð fyrir að þrotabú Landsbankans muni duga fyrir 99% af þeim forgangskröfum sem á því hvíla. Ég hef reyndar frá því ég byrjaði að ræða þetta mál verið bjartsýnn á að þrotabúið gæti staðið undir þessum kröfum að langmestu eða öllu leyti. Það er reyndar mikilvægt að menn fari að greiða þessar kröfur áður en kemst upp um bankakerfi Evrópu og ríkisskuldirnar eins og ég nefndi áðan en alla vega, ef menn gera það, ætti þetta að geta staðið nokkuð vel eða að öllu leyti undir kröfunum. Það var sem sagt óþarfi að íslenska ríkið tæki á sig ríkisábyrgð eða hvað þá lán á háum vöxtum til að staðgreiða þessar kröfur fyrir hönd þrotabúsins því að auðvitað á þrotabúið að standa undir þessu, það er einfaldlega lögum samkvæmt. Menn höfðu hugmyndir um það, eins og birtist í þeim lögum sem við erum að ræða hér, að íslenskur almenningur tæki að sér að taka lán á himinháum vöxtum til að geta greitt Bretum og Hollendingum þetta út strax. Þá er rétt að hafa í huga að þrotabú greiða yfirleitt ekki vexti. Yfirleitt þykir mönnum vel sloppið ef einhver sem þeir hafa átt viðskipti við fer í þrot, fer á hausinn, að fá allar kröfur sínar greiddar þó að ekki sé með vöxtum. Í þessu tilviki ætluðu stjórnvöld að taka að sér að borga Bretum og Hollendingum vexti í ofanálag til viðbótar við þau gríðarlegu verðmæti sem breskum og hollenskum stjórnvöldum höfðu verið tryggð með neyðarlögunum, með lagasetningu sem færðu þá sem kröfuhafa á þrotabú Landsbankans ofar í kröfuhafaröðina en aðra, tryggði með því mörg hundruð milljarða kr. á kostnað annarra kröfuhafa, þar með talið íslenskra lífeyrissjóða og Seðlabankans. En með lögunum fengu bresk og hollensk stjórnvöld, fjármálaráðuneyti þessara landa, forgang. Svo það að ætlast til þess að íslenskur almenningur færi að borga vexti í ofanálag var býsna langt seilst.

Það var nefnt áðan, hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson nefndi það að í nýrri skýrslu um stofnun nýju bankanna hefði komið í ljós að íslensk stjórnvöld hefðu átt í samningaviðræðum við Breta og Hollendinga varðandi stofnun Nýja Landsbankans og skipti á gamla Landsbankanum. Í fyrsta lagi staðfestir þetta að menn litu á Bretland og Holland sem kröfuhafa í þrotabú bankans frá upphafi. Þetta er áhugaverð staðreynd vegna þess að um hvað snerust þau lög sem við erum að ræða um að fella úr gildi? Þau snerust um það að íslenska ríkið í gegnum Tryggingarsjóð innstæðueigenda ætti að verða kröfuhafi í þrotabúið. Íslenska ríkið ætlaði að staðgreiða Bretum og Hollendingum en taka í staðinn við hlutverki kröfuhafa í bankann. En við sjáum núna að viðræðurnar við Breta og Hollendinga um stofnun nýja bankans þar sem litið er á þá sem kröfuhafa í þrotabúið staðfestir það sem reyndar er lögum samkvæmt að það hafi verið þeir en ekki Tryggingarsjóður innstæðueigenda eða íslenska ríkið sem hafi verið hinn eiginlegi kröfuhafi á Landsbankann.

Það er áhugavert sem ég nefndi áðan með þetta nýja mat á endurheimtunum, sem bendir til þess að Bretar og Hollendingar muni fá nánast allt sitt greitt, að þetta virðast vera nýjar fréttir fyrir marga erlendis, fyrir suma erlenda fjölmiðlamenn og jafnvel stjórnmálamenn í Bretlandi og Hollandi vegna þess að einhvern veginn höfðu þeir fengið þá mynd af atburðarásinni að Íslendingar ætluðu bara að hirða þrotabú Landsbankans, Bretar og Hollendingar fengju ekki neitt. Þetta var einfaldlega vegna þess að íslensk stjórnvöld höfðu ekki fyrir því að útskýra út á hvað þetta mál raunverulega gengi þrátt fyrir að gengið væri á eftir því hvað eftir annað í meira en tvö ár að stjórnvöld tækju nú til við það að útskýra málið út á við. Nei, það var ekki einu sinni búið að koma þessari grundvallarstaðreynd á framfæri. Það voru hins vegar hópar sjálfboðaliða sem tóku að sér að kynna málið fyrir erlendum fréttamönnum og erlendum stjórnmálamönnum. Ég nefni sem dæmi Indefence-hópinn sem hitti að máli og ræddi við mörg hundruð erlenda fréttamenn á þessu tímabili og hvað eftir annað ráku menn sig á að þessir fréttamenn voru að heyra grundvallarstaðreyndir málsins í fyrsta skipti. Fyrst ætluðu þeir ekki að trúa því vegna þess að þeir höfðu allt aðra mynd af málinu og skyldi engan undra eins og íslensk stjórnvöld töluðu, töluðu frá byrjun eins og þetta væru skuldir íslensks almennings sem okkur bæri að greiða, íslenskum skattgreiðendum. Þannig að þegar sjálfboðaliðar fóru að útskýra fyrir erlendum fréttamönnum út á hvað þetta raunverulega gekk áttu þeir erfitt með að trúa því til að byrja með.

Nú hefur reyndar orðið ein skemmtileg breyting á í stjórnarliðinu og það er pólitíska kamelljónið Árni Páll Árnason, hæstv. efnahagsráðherra. Það verður að segja honum til hróss að eftir að niðurstaðan lá fyrir í þjóðaratkvæðagreiðslunni þar sem Íslendingar höfnuðu því enn og aftur að taka á sig þessar kröfur á þrotabú Landsbankans hefur hann farið að tala á annan hátt en hann gerði fram að því. Hann hefur leitast við að útskýra út á hvað málið raunverulega gengur og í sumum tilvikum hitt fyrir fólk sem er að heyra það í fyrsta skipti hverjar staðreyndir málsins eru.

Það var mikið rætt í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslunnar um lánshæfismat, lánshæfismatsfyrirtækin sérstaklega og hættuna sem af þeim stafaði vegna þess að þau væru vís til að refsa Íslendingum, lækka lánshæfismat Íslendinga ef þeir tækju ekki á sig enn meiri skuldir. Það var aldrei hægt að rökstyðja þetta almennilega en þessu var haldið fram þráfaldlega. Núna höfum við hins vegar séð að öll þrjú helstu lánshæfismatsfyrirtækin hafa heldur bætt lánshæfismat sitt á Íslandi eftir að þjóðin hafnaði því að taka á sig þessar kröfur og sanna þar með það sem haldið var fram í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslunnar að það að auka skuldir er ekki leiðin til þess að bæta aðgang að lánsfé.

Í stað þess að við gerum þessi lög að minnisvarða í lagasafninu legg ég til að við fellum þau formlega úr gildi. Það gæti farið vel á því að við gerðum það líka með táknrænum hætti. Næst þegar verður góðviðrisdagur geta þingmenn grillað saman í garðinum á bak við Alþingishúsið, kveikt upp í grilli og brennt þessi lög á grillinu áður en við setjum á það íslenskt kjöt og grænmeti og fögnum því (Gripið fram í.) að við séum endanlega laus við þessi afleitu Icesave-lög.