139. löggjafarþing — 130. fundur,  19. maí 2011.

brottfall laga um ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

768. mál
[18:54]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (U) (andsvar):

Frú forseti. Jú, mér bárust þau ummæli til eyrna. Um þau vil ég segja að þetta er einmitt það sem ég hef áhyggjur af. Hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra sem á sér þann draum heitastan að verða forustumaður Samfylkingarinnar, sem telur að hún sé forustuafl í íslenskum stjórnmálum, er ekki tilbúinn til að viðurkenna að átt hafi sér stað mistök einhvers staðar í þessu ferli. Einhvers staðar í þessu ferli hafi átt sér stað mistök og það sé hugsanlega rétt að segja: Jú, það voru mistök að samþykkja Icesave á sínum tíma.

Ég hefði óskað eftir því að hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra hefði viðurkennt að það hefði verið svo. Hefði hann gert það hefði ég treyst honum miklu betur til að halda á þeim málum sem fram undan eru. Ég hef nefnilega áhyggjur af því að þegar menn eru ekki tilbúnir til að viðurkenna mistök einu sinni hvernig þeir ætla að halda á málum í framhaldinu. Hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra er í samræðum við ESA og fleiri aðila hvað þetta mál snertir og ég held að hann sjálfur ætti að velta því fyrir sér hvort hann geti haldið hagsmunum Íslendinga til haga í málinu, eins og íslenska þjóðin hefur sjálf gert og sýndi hug sinn í þjóðaratkvæðagreiðslu. Er honum fært að keyra aðra línu en hann hefur djúpa sannfæringu fyrir? Ég skal ekki segja. En ég hef áhyggjur af því miðað við þessi ummæli hans og reyndar fleiri aðila í ríkisstjórn. Ég hef áhyggjur af hagsmunum Íslendinga í framhaldinu af þessu máli.