139. löggjafarþing — 130. fundur,  19. maí 2011.

brottfall laga um ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

768. mál
[18:57]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Ásmundi Einari Daðasyni fyrir ræðu hans. Það var greinilegt á máli hans að hann getur tjáð sig og tjáði sig í dag af meira frelsi en hann hefur gert áður í þessu máli og var ánægjulegt að hlusta á hann gera rækilega grein fyrir afstöðu sinni því að ég sat með hv. þingmanni í fjárlaganefnd á þeim tíma og var vitni að því hvað það var erfitt fyrir marga þingmenn í fjárlaganefnd að vinna í málinu. Það var erfitt fyrir fleiri þingmenn en bara hv. þm. Ásmund Einar Daðason vegna þess að þó að menn væru þar í stjórnarmeirihluta voru menn ekki endilega fyllilega sáttir við málið.

Mig langar líka að tæpa á því að hér ber að þakka forseta Íslands fyrir framgöngu hans í málinu því að það leiddi til þess að þjóðin fékk tvisvar sinnum að greiða atkvæði um mjög umdeilt mál og er mjög mikilvægt skref í átt að beinu lýðræði, sem ég vona að við getum í auknum mæli nýtt okkur í framtíðinni.

Hv. þingmaður kom inn á eitt sem mér finnst mjög mikilvægt og það er: Hvað getum við lært af þessu máli því að að mörgu leyti dró Icesave-málið fram það versta í íslenskum stjórnmálum. Að einhverju leyti dró það líka fram það besta í íslenskum stjórnmálum því að þingið skoðaði málið mjög rækilega og vel og vandaði sig mikið við vinnuna hvort sem menn voru með því eða á móti. Niðurstöðurnar voru með ákveðnum hætti. En ég tel mikilvægt að skoða, og í ljósi þess að í salnum hafa verið tveir nefndarmenn í forsætisnefnd, hvort það sé ekki þess virði fyrir Alþingi Íslendinga að taka málið upp á þeim grundvelli: Hvað getum við lært af þessu sem Alþingi, sem þingmenn og sem stjórnmálamenn, af þessu sennilega stærsta og erfiðasta deilumáli lýðveldissögunnar ef ske kynni að vera fyrir utan hernámsmálið?