139. löggjafarþing — 130. fundur,  19. maí 2011.

brottfall laga um ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

768. mál
[18:59]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (U) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil taka undir í fyrstu með hv. þingmanni þegar hann hælir forseta Íslands, Ólafi Ragnari Grímssyni. Ég held að margir hafi verið ósáttir við ummæli hans og sérstaklega þeir sem hafa stutt þessa Icesave-samninga þegar hann hefur sagt að hann hafi að einhverju leyti veitt íslensku þjóðinni sjálfstraust í þjóðaratkvæðagreiðslunni. Ég held einmitt að það sé að hluta til rétt hjá forseta Íslands að þjóðin fékk aukið sjálfstraust við það að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu og sýna, kannski okkur alþingismönnum og fleirum, að það er óhætt að standa í lappirnar þegar maður er órétti beittur. Það er það sem Íslendingar gerðu. Þeir sýndu það tvisvar sinnum í Icesave-málinu að það er ekki að vera hræddur að standa í lappirnar þegar maður er órétti beittur. Og það er þannig sem Íslendingar eiga að hugsa, ekki bara í þessu máli heldur í öðrum málum líka og það er þannig sem við alþingismenn eigum líka að hugsa.

Hvað við alþingismenn getum lært af þessu þá held ég að þetta sé eitt dæmi um það þegar framkvæmdarvaldið ætlar sér að koma með mál eins og þetta inn, sem er þetta umdeilt, og með þeirri miklu hörku sem fylgdi því að koma því áfram án þess að meiri hluti væri fyrir því. Í fyrsta lagi að leggja það fram, í öðru lagi að reyna að þvinga það einhvern veginn áfram á öllum stigum þvert gegn þingvilja. Það var ekki meirihlutavilji fyrir því á þinginu.

Við getum hugsað okkur sem svo að þarna hafi kannski í fyrsta skipti í mjög langan tíma löggjafarvaldið sagt við framkvæmdarvaldið: Nei, hingað og ekki lengra. Það er það sem gerðist. Þess vegna var farið að semja þessa fyrirvara þrátt fyrir að það hafi síðan farið í gegn og í gegnum atkvæðagreiðslu Icesave 2 og Icesave 3, þá finnst mér það stóri kjarninn í þessu. Í stórum og veigamiklum málum á löggjafarvaldið ekki að hika við að segja nei, hingað og ekki lengra, við framkvæmdarvaldið ef þess er þörf.