139. löggjafarþing — 131. fundur,  20. maí 2011.

störf þingsins.

[10:36]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Virðulegi forseti. Nú liggja fyrir þinginu tvö frumvörp varðandi stjórn fiskveiða sem byggð eru á meginniðurstöðum endurskoðunarhóps sem var skipaður árið 2009 og skilaði af sér niðurstöðum síðasta haust. Endurskoðunarhópurinn komst einhuga að þeirri niðurstöðu að nytjastofnar við strendur landsins ættu að vera eign þjóðarinnar, eign íslenska ríkisins.

Ein af meginniðurstöðum hópsins er að gerðir verði tímabundnir samningar við þá sem fá að nýta þá auðlind og að byggðatengingar aflaheimilda verði auknar frá því sem verið hefur. Um þetta var full samstaða. Einnig var full samstaða í hópnum um að grípa eigi til aðgerða til að sporna við því að þeir sem fá að nýta auðlindir sjávar nýti þær með öðrum hætti en veiða þær, þ.e. að þeir fénýti þær ekki. Full samstaða var í endurskoðunarhópnum um að takmarka mjög framsal innan ársins þannig að menn veiddu sem mest af þeim afla sem þeir fá án þess að draga úr þeim nauðsynlega sveigjanleika sem fólginn er í því að menn geti skipst á aflaheimildum. Full samstaða var í hópnum um að takmarka mjög varanlegt framsal, takmarka að þeir sem fá nýtingarsamninga geti selt þá varanlega eða veðsett inn í framtíðina. Um það var full samstaða (Gripið fram í: Hvernig samstaða var það?) í endurskoðunarhópnum og þetta undirrituðu meðal annars fulltrúar allra stjórnmálaflokka á þingi.

Frumvörpin byggjast á þeirri samstöðu sem þarna kom fram. Þetta eru meginmarkmið endurskoðunarhópsins og eru meginsjónarmiðin sem koma fram í frumvörpunum sem lögð hafa verið fram á þingi og kallað hefur verið eftir. Síðast í gær stóðu menn á orgunum, m.a. fulltrúar Sjálfstæðisflokksins, og gerðu hróp að forsætisráðherra fyrir að málið væri ekki komið á dagskrá. En síðan þegar á reynir beita þeir þeim brögðum sem þeir kunna til að koma í veg fyrir að málið verði rætt í dag. Það er á ábyrgð stjórnarandstöðunnar, (Forseti hringir.) ekki vegna þess að hún guggnaði, (Gripið fram í.) ekki vegna þess að stjórnarandstaðan bognaði undan álaginu (Forseti hringir.) sem fylgir því að starfa á þessum stað (Gripið fram í.) heldur vegna þess að þeim rann blóðið til skyldunnar, þeir ætluðu aldrei að vera með þegar á reyndi.