139. löggjafarþing — 131. fundur,  20. maí 2011.

störf þingsins.

[10:39]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Ég ætla að taka til umfjöllunar sama efni og hv. þm. Björn Valur Gíslason sem var ræðumaður á undan mér, hvað sem líður frammíköllum hv. þm. Árna Johnsens, vakti máls á og það eru sjávarútvegsmálin. Ég hef skoðað sérstaklega samþykkt flokksþings Framsóknarflokksins í sjávarútvegsmálum og af því að ég ber alla jafna nokkurt traust til framsóknarmanna og hef trú á þeim hef ég m.a. skoðað hana í ljósi þeirra frumvarpa sem ríkisstjórnin hefur lagt fram og kynnt um breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu. Og einnig með vísan til ummæla sem ýmsir þingmenn Framsóknarflokksins hafa viðhaft um að frumvörp ríkisstjórnarinnar séu í öllum meginatriðum (Gripið fram í.) í samræmi við markmið Framsóknarflokksins.

Það er rétt sem hér hefur komið fram að undanförnu, m.a. í þingsal í gær, að nánast hefur verið öskrað á það að frumvörpin um sjávarútvegsmál kæmu fram til umræðu á þingi. Nú ber svo við, eins og ég hef skilið málið, að stjórnarandstöðuflokkarnir, (Gripið fram í.) að minnsta kosti tveir og meira að segja Framsóknarflokkurinn, sem ég hefði ekki trúað, hafa viljað koma í veg fyrir að málin yrðu sett á dagskrá.

Menn hljóta að velta fyrir sér hvort ekki sé vilji Framsóknarflokksins að ræða að minnsta kosti þær grundvallarbreytingar sem hér eru lagðar til og sem mér sýnast margar hverjar vera í samræmi við það sem flokksþing Framsóknarflokksins samþykkti þó einstakar útfærslur geti verið með öðrum hætti. Við getum þá rætt það. Vilja menn til dæmis ekki auka strandveiðarnar? Vilja menn ekki gefa möguleika á síld sem nauðsynlegum meðafla? Vill Framsóknarflokkurinn það ekki? Vill hann ekki fá þetta mál til umræðu í þinginu sem fyrst, koma því til nefndar svo hægt sé að fjalla um það (Forseti hringir.) á faglegan og málefnalegan hátt og koma því til umsagnar?

Ég beini þessari spurningu til formanns þingflokks Framsóknarflokksins. (ÁsmD: Er Framsókn á móti strandveiðum?)