139. löggjafarþing — 131. fundur,  20. maí 2011.

störf þingsins.

[10:43]
Horfa

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vildi ræða frekar um hið fyrra mál sem var á dagskrá, þ.e. mengunina frá ýmissi stóriðju sem starfrækt er í dag, bæði jarðhitaveitum, stóriðjuverksmiðjum og sorpbrennslustöðvum. Dæmin sem komið hafa í ljós eru alvarleg, svo sem þær kvartanir sem einstaklingar hafa borið fram vegna hugsanlegrar mengunar, ferlið sem fer í gang þegar sótt er um starfsleyfi og ekki síður andstaðan sem ríkt hefur hér á landi og er landlæg eftir að ljóst hefur orðið að hætta sé á mengun frá ákveðinni starfsemi.

Þó nokkur ár liðu þangað til að í ljós kom að flúormengun var frá stóriðjunni í Straumsvík. Þegar ljóst er að hætta er á flúormengun frá álverum þá eiga þau auðvitað ekki að fara af stað með nýja starfsemi öðruvísi en að sjálfsagt sé að allar varnir séu með besta hætti sem þekktar eru. Ef varnirnar eru dýrar verður að meta hvort rekstur nýrrar verksmiðju ber kostnaðinn en þær eiga að vera góðar. Eins ber okkur að betrumbæta þær mengunarvarnir sem eru í dag hvað varðar brennistein frá jarðhitaveitum. Við eigum að hafa fullkomnar varnir á þeim veitum sem settar verða upp og fara eftir þeim reglugerðum sem hæstv. ráðherra hefur sett varðandi mengunarvarnir um losun á brennisteini. Það er (Forseti hringir.) synd að orkufyrirtæki okkar eins og Samorka skuli enn vera að berjast gegn þeim reglugerðum sem settar eru.