139. löggjafarþing — 131. fundur,  20. maí 2011.

störf þingsins.

[10:51]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Fólki er heitt í hamsi sem endranær. Ég vil ræða störf þingsins undir þessum ágæta lið, störfum þingsins. Ég lét setja mig á mælendaskrá áður en hv. þm. Björn Valur Gíslason og Árni Þór Sigurðsson tóku til máls en það verður að segjast að þeir gáfu mér enn frekara tilefni til að ræða um störf þingsins. Vegna ummæla þeirra um að stjórnarandstaðan sé að koma í veg fyrir að ákveðin mál séu tekin á dagskrá vil ég byrja á að upplýsa hv. þingmenn og þjóðina alla um það hvernig dagskrárvald Alþingis er ákveðið. Við höfum hér nokkuð sem heita þingsköp Alþingis. Við höfum reglur um þau og fyrsta reglan er sú að mál eiga að koma fram fyrir 1. apríl til að hægt sé að taka þau á dagskrá án þess að leita þurfi afbrigða.

Nú er 20. maí og ríkisstjórnin lagði fram tvö frumvörp um sjávarútvegsmál þann 19. maí, einum mánuði og 19 dögum eftir að fresturinn rann út. Þá þarf að leita afbrigða. Við erum alltaf að tala um að við þurfum að fara upp úr skotgröfunum, hafa málefnalega umræðu, og hæstv. fjármálaráðherra ræddi hér einmitt um daginn þessi sömu sjávarútvegsmál og kallaði eftir að menn ræddu þau af yfirvegun, af þekkingu og efnislega. Þess vegna sagði þingflokkur Sjálfstæðisflokksins nei takk við því að þurfa að greiða um það afbrigði að taka mál á dagskrá þegar þau hefðu legið hér í sólarhring.

Það er fyrst og fremst vandræðagangur, skipulagsleysi, óstjórn og ósamkomulag stjórnarflokkanna sem hefur komið í veg fyrir málefnalega umræðu um þessi (Forseti hringir.) tvö frumvörp og ég vil að lokum hrósa hæstv. forseta Alþingis mjög fyrir stjórn á þinginu (Forseti hringir.) síðustu daga vegna þess að hún hefur sýnt það og sannað í störfum sínum að hún tekur virðingu Alþingis fram yfir (Forseti hringir.) ofríki framkvæmdarvaldsins í þessu máli. Kann ég henni bestu þakkir fyrir.