139. löggjafarþing — 131. fundur,  20. maí 2011.

störf þingsins.

[10:56]
Horfa

Árni Johnsen (S):

Virðulegi forseti. Reiptog hæstv. ríkisstjórnar Íslands er endalaust. Það er sérkennilegt að því leyti að það eru ekki bara tveir endar í reiptoginu þar sem Vinstri grænir og Samfylkingin eru hvor á sínum vængnum, það eru alls konar spottar út úr endunum og þar dingla ýmsir á eiginhagsmunaforsendum. Þetta er sérstakt reiptog á Íslandi.

Störf þingsins eru í reiðileysi. Stjórn landsins er í reiðileysi og þingið dregur dám af því. Það er hrikalegt uppnám í öllu er lýtur að framfaramálum, allt sem skiptir máli sett á klaka. Ríkisstjórnin ætti að hafa manndóm í sér til að segja af sér og sinna fólkinu í landinu sem er orðið þreytt á ráðaleysi, afstöðuleysi og ábyrgðarleysi ríkisstjórnarflokkanna. Þetta er því miður staðreynd málsins.

Eina lífsmarkið er hjá hæstv. utanríkisráðherra sem spókar sig í útlöndum austur og vestur og hittir fólk á samkvæmisstundum þar. (VigH: Rétt.) Annað er nú ekki að ske. (Gripið fram í: Clinton.) Clinton, já, Indland og allsherjarpartí. [Kliður í þingsal.] Íslendingar eru orðnir mjög þreyttir. Vonin er veik því að vilji ríkisstjórnarinnar er enginn og algjört náttúruleysi í því að taka af skarið (Gripið fram í.) í ákveðnum efnum. Ríkisstjórnin elur á tortryggni, ótta, öfund og leiðindum. Það er engin leikgleði eins og þarf að vera í þjóðfélaginu.

Hæstv. forsætisráðherra Jóhanna Sigurðardóttir hrópar að aðalatvinnuvegi Íslendinga, sjávarútveginum. Kylfurnar og svipurnar eru á lofti. Þó má fagna því og óska þjóðinni allri til hamingju og (Forseti hringir.) Vestmannaeyingum og Ísfélagi Vestmannaeyja vegna þess að stærsta nýja fiskveiðiskip Íslendinga var sjósett í Síle fyrir fáum dögum. Þar eru menn sem hafa trú á Íslandi, (Forseti hringir.) trú á sjálfstæði Íslands þó að íslenska ríkisstjórnin hafi það ekki, hæstv. forseti.