139. löggjafarþing — 131. fundur,  20. maí 2011.

störf þingsins.

[10:59]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Það er leiðinlegur svipur á upphafi þingstarfa í dag að fylgjast með hv. þingmönnum Vinstri grænna koma hér upp arga og grama í örvæntingarfullri tilraun til að breiða yfir eigin vandræðagang er snertir fiskveiðistjórnarmálið allt saman, fara að beina spjótum sínum að Framsóknarflokknum í þeirri umræðu og saka okkur, sem í þeim flokki erum, um að vilja ekki ræða málefni sjávarútvegsins af yfirvegun. Ég beini því til hv. þingmanna að vera sjálfir yfirvegaðir í málflutningi sínum hér því að yfirbragð þeirra þingmanna, a.m.k. þriggja vinstri grænna sem hafa talað hér, hefur ekki borið vott um mikla yfirvegun.

Varðandi sundurlyndið sem einkennir ríkisstjórnina í sjávarútvegsmálunum er sorglegt að ríkisstjórnin skuli hafa lagt málið fram með þeim hætti sem raun ber vitni vegna þess að við höfum séð mjög misvísandi skilaboð frá stjórnarliðum þegar kemur að umræðum um það frumvarp. Það er ekki samstaða á ríkisstjórnarheimilinu um fiskveiðistjórnarfrumvarpið, það hefur komið fram opinberlega, og því er þetta máttlítil tilraun Vinstri grænna til að reyna að dreifa athyglinni frá eigin vandræðagangi þegar þeir beina spjótum sínum að Framsóknarflokknum.

Stefna Framsóknarflokksins í sjávarútvegsmálum er mjög skýr og var sett niður á blað á síðasta flokksþingi Framsóknarflokksins sem haldið var í síðasta mánuði. Það er rétt að sumt sem kemur fram í þeirri stefnu rímar að einhverju leyti við þessa stefnu en annað gerir það ekki. Ég get nefnt sem dæmi að töluverðir ágallar sem ég sé á þessu frumvarpi eru meðal annars mjög víðtækar valdheimildir sjávarútvegsráðherra. Mér finnst langtímahugsunin í þessu frumvarpi vera fyrir bí sem hefur verið eitt af aðalsmerkjum íslenska fiskveiðistjórnarkerfisins, og svo sé ég mjög miklar takmarkanir á áframhaldandi hagræðingu (Forseti hringir.) innan greinarinnar þannig að hún geti skilað auðlindarentunni til þjóðarinnar sem við hljótum öll að stefna að. En ég bið Vinstri græna um að vera málefnalega þegar (Forseti hringir.) kemur að umræðu um sjávarútvegsmál.