139. löggjafarþing — 131. fundur,  20. maí 2011.

umhverfismengun frá fyrirtækjum -- umræða um stjórn fiskveiða -- koma hvítabjarna o.fl.

[11:04]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Frú forseti. Ég ætla að vera á töluvert öðrum nótum en hv. þingmenn fram til þessa. Ég er að hugsa um að fagna þeirri undirskrift sem gerð var hér 13. maí af hálfu menntamálaráðherra og Sambands íslenskra sveitarfélaga um tónlistarkennslu í skólum þar sem loksins hefur náðst samkomulag um það með hvaða hætti tónlistarskólarnir eiga að sinna tónlistarkennslu og hverjir eiga að greiða hvað. Þetta er áralöng barátta sem staðið hefur á milli Sambands íslenskra sveitarfélaga og menntamálaráðuneytisins. Nú er þetta í höfn.

Það er hins vegar, frú forseti, með þessa undirskrift eins og ýmislegt annað sem gert er á síðustu metrum hvers þings þegar ráðherrar útdeila fjármagni að spurningin er: Er heimild fyrir því í fjárlögum og hvernig er framkvæmd fjárlaga háttað?

Hv. formaður fjárlaganefndar, Oddný G. Harðardóttir, hefur margsagt og margsýnt vilja sinn í verki til þess að breyta vinnulagi við gerð fjárlaga og fylgjast með því að fjárlögum sé framfylgt en samt koma alltaf fram ráðherrar, ekki bara hæstv. menntamálaráðherra heldur einstaka ráðherrar, og deila út fjármagni, hugsanlega án þess að stoð sé fyrir þeirri fjárúthlutun í fjárlögum.

Frú forseti. Ég fagna þessu framtaki engu að síður en ég óska eftir því við hv. formann menntamálanefndar að hann og nefndin sjálf taki til endurskoðunar lög um tónlistarskóla. Ég vildi gjarnan líka biðja hæstv. ríkisstjórn að útskýra fyrir þinginu hvenær og hvernig þeir 7 milljarðar sem rætt hefur verið um að fara eigi í aukna menntun til framhaldsskólans og framhaldsfræðslu (Forseti hringir.) eigi að fara í þann leiðangur.