139. löggjafarþing — 131. fundur,  20. maí 2011.

fundarstjórn.

[11:09]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Hér hafa ýmsir menn rætt um störf þingsins og ég tel ástæðu til að ræða í framhaldi af því um fundarstjórn forseta. Það er alveg augljóst að menn vilja komast í umræðu um fiskveiðifrumvörpin. Menn vilja gera það í dag. Það er ljóst að það er meiri hluti á þinginu eftir ræðu Gunnars Braga Sveinssonar, hv. formanns þingflokks framsóknarmanna, fyrir afbrigðum. Það er ekki ljóst hvað Sjálfstæðisflokkurinn vill gera en það er samt ljóst að Sjálfstæðisflokkurinn er þegar farinn í ræðustól, hv. þm. Einar K. Guðfinnsson o.fl., og byrjaður að ræða málið efnislega. Ég sé ekki að okkur sé neitt að vanbúnaði, frumvarpið er komið fram, (Gripið fram í.) meiri hluti tiltækur til að taka málið til efnislegrar meðferðar og sjávarútvegsráðherra alveg akhress á göngum þingsins og reiðubúinn, situr núna virðulegur og fullburða í sæti sínu og reiðubúinn að flytja bæði málin þegar menn óska eftir.

Ég geri það að tillögu minni að eftir atkvæðagreiðslu verði þessum fundi slitið og síðan settur annar með þeirri dagskrá sem meiri hluti þingsins er nú orðinn sammála um að eigi að vera hér í dag. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)