139. löggjafarþing — 131. fundur,  20. maí 2011.

barnaverndarlög.

56. mál
[11:17]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Ég tek undir að það var mjög gott samstarf í hv. félagsmálanefnd um þetta mál og þar unnu allir saman að því. Ég tel að frumvarpið sé mjög til bóta. Hins vegar vantar enn að reyna að komast inn fyrir þann huliðshjálm sem eðlilega umlykur barnaverndarmál. Þau eru mjög viðkvæm en það gerir líka að verkum að það getur verið mjög erfitt fyrir fólk að kæra einhverjar misfellur sem verða eins og Breiðavíkurmálið sýndi.

Það er ýmislegt fleira sem maður gjarnan vildi hafa séð í þessu frumvarpi en ég tel engu að síður að það sé mjög til bóta og ég segi já við því.