139. löggjafarþing — 131. fundur,  20. maí 2011.

vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum.

707. mál
[11:54]
Horfa

Frsm. umhvn. (Mörður Árnason) (Sf) (andsvar):

Forseti. Þrátt fyrir það sem áður er sagt í þessari umræðu af minni hálfu ætla ég ekki að standa á móti því ef umhverfisnefndarmenn og aðrir áhugamenn um hreindýraveiðar og dýravernd í salnum vilja að málið sé rætt meira í nefndinni, þá verður það að sjálfsögðu gert. Það verður að vísu ekki tími til þess á reglulegum fundum nefndarinnar í nefndavikunni eða þeim fundum sem settir hafa verið niður í nefndavikunni en við getum örugglega fundið einhvern fundartíma eftir kvöldmat t.d. á mánudegi eða þriðjudegi til að fara í gegnum þetta og ræða þau álitaefni sem hv. þingmanni hefur verið svarað með en aðrir gera sig ekki ánægða með. Ég hvet forseta til þess og bið hann um að fresta þá þessari umræðu um málið og við tökum hana þá síðar eftir rækileg fundahöld í umhverfisnefnd, t.d. á mánudags-, þriðjudags- og miðvikudagskvöld í næstu viku.