139. löggjafarþing — 131. fundur,  20. maí 2011.

staða íslenskrar tungu og íslensks táknmáls.

533. mál
[11:56]
Horfa

Frsm. menntmn. (Skúli Helgason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti menntamálanefndar um mikilvægt frumvarp sem markar gleðileg tímamót. Með frumvarpinu er stefnt að því að setja í fyrsta sinn heildstæða löggjöf um annars vegar stöðu íslenskunnar sem þjóðtungu í landi okkar og hins vegar lögfesta og styrkja þannig stöðu íslenska táknmálsins sem fyrsta mál þeirra einstaklinga sem þurfa að treysta á það til tjáningar og samskipta.

Hér er stigið táknrænt skref í þá átt að treysta stöðu íslenskunnar og á sama hátt er brotið í blað í réttindabaráttu heyrnarlausra, heyrnarskertra, daufblindra og aðstandenda þeirra sem lengi hafa þrýst á um það að táknmálið fengi þá viðurkenningu í íslenskri löggjöf sem því ber.

Menntamálanefnd hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund fjölmarga gesti úr röðum umsagnaraðila. Umsagnir bárust frá allmörgum umsagnaraðilum og var þorri þeirra jákvæður í garð frumvarpsins þó að ýmsir hefðu athugasemdir og ábendingar um það sem betur mætti fara eins og vera ber.

Eitt af meginmarkmiðum frumvarpsins er að tryggja lagalega stöðu íslenskunnar og íslensks táknmáls í íslensku samfélagi. Í 1. gr. frumvarpsins er almenn yfirlýsing um að íslenska sé þjóðtunga Íslendinga og opinbert mál á Íslandi. Nefndin tekur heils hugar undir þessa stefnuyfirlýsingu og telur hana mikilvæga í ljósi aukinna áhrifa frá umheiminum á íslenskt samfélag. Auðvitað veldur þessi yfirlýsing ekki ein og sér byltingu í samfélagi okkar því að eitt af sérkennum þess er að þjóðmenning okkar er venju fremur einsleit í alþjóðlegum samanburði og ekki um það að ræða að önnur tungumál veiti íslenskunni samkeppni um sæmdarheitið þjóðtunga landsins. En það er hin formlega staða og veruleikinn er flóknari og sannarlega er ástæða til að halda vöku sinni gagnvart sívaxandi áhrifum og ítökum enskunnar, einkum og sér í lagi, í málumhverfi okkar, sérstaklega á þær kynslóðir sem nú eru að vaxa úr grasi.

Sannarlega er hægt að tala um byltingu þegar við berum saman málumhverfi Íslendinga í byrjun 21. aldarinnar og t.d. um miðja síðustu öld. Tækniþróun í fjölmiðlun, tilkoma ljósvakamiðlanna og sérstaklega sjónvarpsins á sjöunda áratugnum, einkarekinna fjölmiðla á þeim níunda og innreið netmiðla á tíunda áratugnum hefur gert það að verkum að framboð á upplýsingum og sérstaklega afþreyingarefni hefur margfaldast á innan við mannsaldri. Þorri þessa efnis er á erlendum tungum og þá sérstaklega ensku og allir foreldrar barna og unglinga hér í landinu kannast við það mikla aðdráttarafl sem framboð af erlendu afþreyingarefni hefur fyrir kynslóðirnar sem eiga að erfa landið.

Af þeim sökum er full ástæða til að standa vörð um íslenskuna í þessari hörðu alþjóðlegu samkeppni um athygli landsmanna. Í þeim skilningi er mikil þörf á frumvarpi eins og þessu sem vonandi leiðir af sér umræðu í samfélaginu um stöðu íslenskunnar en umræða er ekki nóg. Samhliða henni þurfa að koma til virkar aðgerðir til að efla og vernda íslenska tungu. Það gerist m.a. með fræðilegum rannsóknum en einnig með vönduðu íslensku dagskrárefni í fjölmiðlum og ekki síður tæknilausnum, t.d. á sviði hugbúnaðargerðar og námsgagnagerðar á íslensku. Þar er mikilvægt að stjórnvöld og einkaaðilar taki höndum saman um að nýta nýjustu tæknilausnir, þar með talið á sviði margmiðlunar, til að útbúa íslensk námsgögn sem höfða til yngstu kynslóðanna.

Ég tel að við eigum t.d. að nýta þann mikla sköpunarkraft sem er að finna í vaxandi atvinnugrein, leikjaiðnaðinum, til að búa til ný og spennandi námsgögn eða kennsluefni á íslensku fyrir nemendur í grunnskólum og framhaldsskólum. Af hverju? Jú, vegna þess að við viljum skólastarf sem vekur áhuga nemenda og virkjar hæfileika þeirra, og til þess að svo megi verða þurfa skólarnir okkar að vera búnir nýjustu lausnum sem örva nemendur á jákvæðan hátt. Íslenskan þarf að höfða til unga fólksins í landinu og það kallar á virka nýsköpun tungumálsins og öflugan stuðning stjórnvalda og vel meinandi einkaaðila við rannsóknir, þróunarstarf og þar með talið vöruþróun í þágu þjóðtungunnar.

Virðulegi forseti. Einn helsti tilgangur frumvarpsins og sá hluti þess sem markar því sögulegan sess fyrir utan lögfestingu íslenskunnar sem þjóðtungu er ákvæði 3. gr. þar sem í fyrsta sinn er tryggð staða íslenska táknmálsins í löggjöf hér á landi. Í 1. mgr. 3. gr. er gert ráð fyrir að íslenskt táknmál hljóti opinbera viðurkenningu sem fyrsta mál heyrnarlausra, heyrnarskertra og daufblindra sem og afkomenda þeirra sem þurfa að reiða sig á það til tjáningar og samskipta. Nefndin tekur undir þau sjónarmið sem fram komu í máli umsagnaraðila að mikilvægt sé að tryggt verði að ekki aðeins eigi sá sem greinist heyrnarlaus, heyrnarskertur eða daufblindur rétt á að læra og nota íslenskt táknmál heldur sé einnig afar brýnt að tryggja aðgengi nánustu aðstandenda þeirra að táknmálinu. Nefndin leggur því til breytingar á 1. mgr. 3. gr. og bendir á að þar er fjallað um íslenskt táknmál sem fyrsta mál og er því hér vísað til heyrandi barna heyrnarlausra foreldra en íslenskt táknmál er fyrsta tungumál þeirra þótt þau hafi möguleika á máltöku í íslensku. Með hliðsjón af þessu leggur nefndin einnig til breytingar á 2. mgr. 3. gr. frumvarpsins þess efnis að við hana bætist nýr málsliður sem kveður á um sama rétt nánustu aðstandenda til að læra og nota táknmál. Með nánustu aðstandendum er hér átt við maka, foreldra, systkini sem og móður- og föðurforeldra svo sem við á.

Ég tel að þessi breyting sé afar þýðingarmikil því að hún undirstrikar mikilvægi táknmálsins sem lykiltæki til samskipta og til að vilji löggjafans um raunverulega réttarbót komi til framkvæmda er nauðsynlegt að ekki aðeins afkomendur heyrnarlausra, heyrnarskertra og daufblindra hafi fullan aðgang að táknmálinu og vald á notkun þess heldur einnig nánir aðstandendur svo sem makar, foreldrar, systkini, afar og ömmur. Hér er um réttlætismál að ræða, þetta er mannréttindamál og mikilvægur áfangi á þeirri leið að jafna stöðu og réttindi allra íbúa í landinu.

Fyrir nefndinni komu fram þau sjónarmið að lögfesting ákvæða um íslenskt táknmál hefði í för með sér verulega aukinn kostnað fyrir sveitarfélög og íslenska ríkið. Nefndin vill í þessu sambandi benda á að í dag er áætlað að Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra sinni um 98% af þeirri túlkaþjónustu sem stofnunin fær beiðnir um. Ekki er því ástæða til að ætla að lögfesting frumvarpsins leiði til umtalsverðs kostnaðarauka hvað þetta varðar. Þess má geta að áætlað er að um 300 einstaklingar noti nú táknmál sem fyrsta mál. Rétt er að vekja á því sérstaka athygli að mikilvægt er að skilgreina nánar með hvaða hætti sá réttur sem hér er lögfestur, ef frumvarpið verður að lögum, hvort sem er til að læra íslensku eða táknmál, verði útfærður í þjónustu á einstökum málasviðum svo sem í menntakerfinu, félagsþjónustunni, stjórnsýslunni og á öðrum sviðum mannlífsins. Nefndin vill benda á í því sambandi að verið er að leggja lokahönd á tillögur um úrbætur hvað varðar þjónustu við þann hóp sem reiðir sig á táknmál sem fyrsta mál sem og heildarlöggjöf um innflytjendur, sem verða að sjálfsögðu kostnaðarmetnar.

Virðulegi forseti. Í frumvarpinu er ekki sérstaklega getið um réttindi blindra en menntamálanefnd telur að hins vegar sé rétt og eðlilegt að festa í lög og viðurkenna stöðu íslenska punktaletursins sem íslenskt ritmál þeirra sem það nota í frumvarpinu. Nefndin leggur til slíka breytingu og tekur þar með undir tillögu umsagnaraðila og telur að með henni sé stigið mikilvægt skref í þá átt að tryggja réttindi blindra á Íslandi.

Ákvæði 2. gr. frumvarpsins um íslenska tungu tekur til íslenskra ríkisborgara, samanber lög nr. 100/1952, um íslenskan ríkisborgararétt, og erlendra ríkisborgara sem búsettir eru hér á landi. Hið sama á við um 2. mgr. 8. gr. frumvarpsins sem fjallar um túlkaþjónustu þegar borgari þarf að ganga erinda sinna gagnvart stjórnsýslunni og fyrir dómstólum. Nefndin vill benda á að af þessu leiðir að þeim sem hér búa og hafa ekki náð fullnægjandi tökum á tungumálinu til þátttöku í íslensku samfélagi skal veitt aðstoð við þýðingar eftir atvikum með aðstoð túlka.

Frá umsagnaraðila kom fram sú athugasemd hvort ekki ætti að fella ákvæðið frekar inn í heildarlöggjöf um málefni innflytjenda sem nú er unnið að í velferðarráðuneytinu. Nefndin áréttar að með ákvæðinu er ætlunin að sporna við samfélagslegri útilokun og mismunun þeirra sem skort hefur þekkingu til að nota íslenskt mál. Nefndin bendir á að með ákvæðinu er ekki kveðið á um rétt til endurgjaldslausrar þjónustu en á árinu 2010 er talið að opinber framlög hafi mætt um 50% kostnaðar við íslenskukennslu útlendinga. Vonandi tekst að hækka það hlutfall eftir því sem hagur vænkast í þjóðarbúinu en þetta hlutfall var umtalsvert hærra fyrir hrun eða um 90% og standa vonir til þess að við náum þeirri stöðu aftur áður en langt um líður.

Ég nefndi hér fyrr mikilvægi nýsköpunar í námsgagnagerð og í því samhengi vil ég vekja athygli á 10. gr. frumvarpsins þar sem segir m.a. að stjórnvöldum sé ætlað að tryggja að íslenskur fræðiorðaforði eflist jafnt og þétt. Nefndin vekur athygli á því að á málræktarsviði Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum er unnið að ýmiss konar fræðilegum verkefnum sem snerta málrækt og íðorðafræði. Mikilvægt er að styðja það góða starf sem þar er unnið. Einnig er ástæða til að vekja athygli á því að þar gæti orðið að góðu liði Málræktarsjóður sem stofnaður var að undirlagi Íslenskrar málnefndar fyrir réttum 20 árum og er m.a. ætlað að styrkja nýyrða- og íðorðasmíð í landinu, gerð kennsluefnis á íslensku o.s.frv. Því miður hefur þessi sjóður eins og margir aðrir orðið fyrir barðinu á skakkaföllum í fjármálakerfinu á undanförnum árum, fyrst netbólunni sem sprakk upp úr aldamótaárinu og síðan fjármálahruninu, með þeim afleiðingum að ekki hefur verið hægt að úthluta styrkjum úr sjóðnum undanfarin ár. Hins vegar kannar Íslensk málnefnd nú möguleika á því að breyta skipulagsskrá sjóðsins þannig að hægt verði að hefja úthlutun styrkja að nýju og vonandi hillir undir það hið fyrsta.

Virðulegi forseti. Fjallað er um Íslenska málnefnd í 5. gr. frumvarpsins. Íslensk málnefnd starfar innan Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Með frumvarpinu eru gerðar þær breytingar að ákvæði um málnefndina eru færð í lög um íslenska tungu og kveðið á um að hún starfi sjálfstætt. Nefndinni er heimilt að bjóða mönnum, einum eða tveimur, setu í nefndinni telji hún það nefndarstarfinu til gagns. Í athugasemdum við frumvarpið kemur fram að með nokkrum rétti megi halda því fram að sá hópur sem skipaður er í málnefndina sé nokkuð einsleitur. Menntamálanefnd getur að vissu leyti tekið undir þau sjónarmið og hvetur til þess að málnefndin nýti þá heimild sem fram kemur í frumvarpinu, m.a. til að bjóða fulltrúum almennra málnotenda aðild að nefndinni eftir því sem við á. Nefndin beinir þeim tilmælum til málnefndarinnar að líta þar m.a. til fulltrúa eldri borgara í þessu samhengi sökum þekkingar þeirra og reynslu af notkun íslenskrar tungu.

Menntamálanefnd leggur til breytingu á skipan fulltrúa í Íslenska málnefnd og leggur til að fulltrúar í nefndinni verði alls 16 og fækki um tvo frá því sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu. Nokkrar umræður urðu í nefndinni um hversu fjölskipuð nefndin er og hvort það kæmi niður á störfum hennar. Nefndin vekur sérstaka athygli á því að alls sitja í Íslenskri málnefnd sex fulltrúar háskóla í landinu samkvæmt frumvarpinu, þar af þrír fulltrúar Háskóla Íslands, auk fulltrúa Háskólans á Akureyri, Háskólans í Reykjavík og Listaháskóla Íslands. Þrír háskólar í landinu eiga hins vegar ekki fulltrúa í nefndinni. Menntamálanefnd bendir á að samstarfsnefnd háskólastigsins hefur starfað frá árinu 1990 og starfar samkvæmt 26. gr. laga um háskóla en nefndina skipa rektorar háskóla sem fengið hafa viðurkenningu mennta- og menningarmálaráðuneytisins. Samstarfsnefnd háskólastigsins er þannig vettvangur samráðs og samstarfs háskólanna um sameiginleg málefni þeirra og þykir nefndinni rétt út frá sjónarmiðum jafnræðis og í ljósi þess samstarfs sem þeir eiga sín á milli að leggja til þá breytingu að fulltrúum háskólastigsins verði fækkað úr sex í tvo, þar sem samstarfsnefndin tilnefni tvo fulltrúa í stað fulltrúa tiltekinna háskóla.

Nefndin leggur jafnframt til þá breytingu að fulltrúi innflytjenda eigi sæti í nefndinni til samræmis við ákvæði 2. gr. frumvarpsins enda mikilvægt að þeir eigi aðkomu að stefnumótun um þróun íslenskunnar í ljósi þess hve mikil fjölgun hefur orðið í röðum þeirra hér á landi á undanförnum árum. Samkvæmt upplýsingum úr velferðarráðuneyti hafa innflytjendur ekki enn stofnað með sér hagsmunasamtök á landsvísu og leggur því nefndin til að velferðarráðherra skipi viðkomandi fulltrúa úr röðum þeirra. Það er skilningur nefndarinnar að sú skipan verði þó einungis til bráðabirgða eða þar til innflytjendur hafa stofnað með sér samtök sem geti verið málsvari þeirra á landsvísu. Ýmis samtök og stofnanir sinna vel málefnum innflytjenda svo sem Alþjóðasetur, sem áður hét Alþjóðahúsið, fjölmenningarráð Reykjavíkurborgar, Fjölmenningarsetur á Ísafirði og mannréttindasamtökin Ísland Panorama, en ekki er hægt að segja að neinn þessara aðila geti talist óskoraður málsvari innflytjenda á landsvísu. Vonandi sjáum við þó breytingu í þá veru á allra næstu árum.

Virðulegi forseti. Fjallað er um túlkun og táknmálstúlkun hjá stjórnvöldum í 8. gr. frumvarpsins. Hér er kveðið á um rétt til að fá aðgengi að þjónustu samkvæmt lögum um meðferð einkamála og lögum um meðferð sakamála. Nefndin tekur undir þau sjónarmið sem fram komu hjá umsagnaraðila að nauðsynlegt sé að hluti þessa hóps, sem notar íslensku en ekki táknmál, fái einnig réttindi sín tryggð og leggur til breytingar á ákvæðinu.

Nokkrar umræður sköpuðust í nefndinni um hvort nauðsynlegt sé að taka upp ákvæði um íslenska þjóðtungu í stjórnarskrá lýðveldisins en hvergi er vikið að íslenskri tungu eða stöðu hennar í stjórnarskránni. Sú sérstaða ríkir hér á landi í samanburði við flest ríki Evrópu að íslenskan hefur frá upphafi verið eina þjóðtungan í reynd. Sökum þess hafa ekki skapast bein álitamál um þörf á yfirlýsingu í stjórnarskrá um að íslenska sé eða skuli vera þjóðtungan. Þó hafa á síðustu árum skapast umræður í ljósi breyttra þjóðfélagshátta, vaxandi fjölda innflytjenda og alþjóðlegs samstarfs um það hvort rétt sé að treysta undirstöður íslenskrar þjóðtungu með því að taka upp ákvæði um hana í stjórnarskránni.

Í þessu sambandi má benda á að af Norðurlöndunum er Finnland eina ríkið sem hefur sett sérstakt ákvæði um þjóðtungu sína í stjórnarskrá en í Noregi og Svíþjóð hafa verið sett almenn lög um tungumál og réttindi minnihlutahópa í þeim efnum. Athugun á stjórnarskrám heims hefur leitt í ljós að í 158 ríkjum eru stjórnarskrár þar sem vikið er að réttindum sem tengjast tungumálum að einhverju leyti en einungis í 26 stjórnarskrám er tungumálsins ekki getið. Nefndin tekur undir þau sjónarmið sem uppi hafa verið um að eðlilegt sé og í samræmi við stjórnarskrár annarra ríkja að mæla fyrir um það í stjórnarskrá Íslands að þjóðtungan sé íslenska. Telur nefndin að slíkt ákvæði mundi styrkja stöðu tungunnar og undirstrika mikilvægi hennar í menningu þjóðarinnar.

Virðulegi forseti. Við meðferð málsins komu fram athugasemdir um að lögfesting frumvarpsins hefði í för með sér umfangsmeiri og kostnaðarsamari framkvæmd opinberrar þjónustu. Sökum þess væri nauðsynlegt að kostnaðarmeta og afla nánari upplýsinga um möguleg áhrif frumvarpsins fyrir ríki og sveitarfélög. Nefndin vill í þessu sambandi vísa til þess að í kostnaðarmati menntamálaráðuneytis og fjármálaráðuneytis kemur fram að hér sé um að ræða almenna heildarlöggjöf sem feli í sér almenn stefnuviðmið sem síðar verði fylgt eftir í sérlögum á einstökum málasviðum, svo sem í lögum um skólamál og félagsþjónustu, stjórnsýslulögum, meðferð einkamála og sakamála. Nefndin leggur áherslu á að brýnt er að útfæra hið fyrsta þjónustustig umræddra réttinda í sérlögum með tilheyrandi mati á kostnaðarauka fyrir ríki og sveitarfélög.

Nefndin styður heils hugar þá markmiðslýsingu um málfar á vegum hins opinbera sem fram kemur í 7. gr. þar sem segir að mál það sem notað er í starfsemi ríkis og sveitarfélaga skuli vera vandað, einfalt og skýrt. Nokkur misbrestur hefur verið á að frumvörp til laga og fréttatilkynningar frá hinu opinbera uppfylli þessi skilyrði og er mikilvægt að löggjafinn og einstök ráðuneyti sýni í verki metnað til að fylgja vandaðri málstefnu í þessa veru. Nefndin ræddi að æskilegt væri að fela tilteknum aðila eftirfylgni með framkvæmd þessa ákvæðis og jafnframt það hlutverk að veita starfsfólki ríkis og sveitarfélaga ráðgjöf um vandaða og skýra málnotkun innan stjórnsýslunnar. Þar gæti Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum gegnt mikilvægu hlutverki en þar kunna sömuleiðis fleiri aðilar að koma til greina.

Ég vil nota tækifærið og þakka öllum nefndarmönnum í hv. menntamálanefnd fyrir afar góða og vandaða vinnu við meðferð málsins. Það er sérstakt fagnaðarefni að nefndin stendur einhuga að baki afgreiðslu málsins og gott merki þegar stigið er sögulegt skref í réttindaátt fyrir tiltekna hópa í samfélagi okkar, sem góðu heilli verður fjölbreyttara með hverju árinu, að þingmenn nái að sameinast þvert á flokka. Það er mín skoðun að með slíkum vinnubrögðum og vandaðri málefnavinnu í nefndum leggi þingmenn sitt af mörkum til að endurreisa virðingu Alþingis.

Að lokum vil ég færa sérstakar kveðjur til fulltrúa heyrnarlausra, heyrnarskertra og daufblindra sem hafa með mikilli og kröftugri málafylgju sinni á undanförnum árum og áratugum haldið á lofti sjálfsögðum mannréttindum skjólstæðinga sinna í þessum málum. Þeir eiga mikinn heiður skilinn fyrir úthaldið og eiga stóran þátt í því að við erum hingað komin við að afgreiða þetta frumvarp sem vonandi verður að lögum síðar í dag.