139. löggjafarþing — 131. fundur,  20. maí 2011.

staða íslenskrar tungu og íslensks táknmáls.

533. mál
[12:19]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður er formaður hv. menntamálanefndar og ég vildi mælast til þess að í góðu tómi þegar um hægist, ef það skyldi einhvern tíma gerast, ræddu menn sérstaklega þessa nýju tækni á móti því að taka upp táknmál. Ég er alls ekki á móti táknmáli, ég tel það vera mjög mikilvægt, en ég vil ekki að þessi lagasetning loki einhverjar aðrar lausnir af sem eru kannski miklu betri.

Svo vildi ég gjarnan koma því að, af því að ég komst ekki inn á það í fyrra andsvari mínu, sem er orðtakið „það er leikur að læra“. Ég hef í áratug eða lengur barist fyrir því að menn snúi kennslu upp í leik, þ.e. tengi saman leiki sem börn eru áfjáð í að spila og kennslu. Til dæmis að menn læri ensku, ég hef séð svoleiðis leikjaforrit, eða að menn læri stærðfræði í gegnum leik eða eðlisfræði, með því að leysa ákveðin eðlisfræðileg vandamál, með því að kunna eðlisfræðileg lögmál komast menn upp á efra svið í leiknum o.s.frv. Þetta finnst mér að eigi að ýta undir og styrkja.

Ég vildi bara hafa sagt þetta, að það að lögbinda táknmálið gæti hugsanlega, og ég segi hugsanlega, tafið fyrir því að menn noti þessa tækni sem fyrsta möguleika.