139. löggjafarþing — 131. fundur,  20. maí 2011.

almannatryggingar.

797. mál
[13:42]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Fyrir skömmu voru samþykktir kjarasamningar til þriggja ára sem betur fer. Þeir voru að mínu mati mjög rausnarlegir miðað við þá stöðu sem er í þjóðfélaginu í dag, sérstaklega hækkun lágmarkslauna, og þó að öll viljum við sjá lágmarkslaun hækka getur það þýtt fyrir fyrirtæki sem eru illa stæð og kannski með margt láglaunafólk leggi upp laupana, þau standa mörg hver mjög tæpt. Það þýðir aukið atvinnuleysi og þá kannski sérstaklega hjá láglaunafólki sem ekki á auðvelt með að fá vinnu annars staðar. Ég hygg því að kjarasamningarnir séu „hættulega“ góðir. Auðvitað vill maður sjá góða kjarasamninga en það þarf að vera grundvöllur fyrir því, það þarf að vera framleiðni í atvinnulífinu til að standa undir hækkun launa. Laun hafa ekkert hækkað í nokkurn tíma og þá er kannski eðlilegt bara út af verðbólguáhrifum að bæta um og við vonum auðvitað að atvinnulífið standi þetta af sér án mikillar aukningar á atvinnuleysi.

Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar. Til stóð að hv. félagsmálanefnd flytti frumvarpið sem hefði einfaldað allt ferlið. Það liggur auðvitað mikið á, herra forseti, og það stóð til að félagsmálanefnd flytti frumvarpið af því að það mundi flýta fyrir, af því að þá þyrfti ekki að vísa því til nefndar, en við þingmenn stjórnarandstöðunnar, held ég að ég fari rétt með, treystum okkur ekki til þess vegna þess að á þeim tímapunkti lá ekki fyrir hvað þetta mundi kosta. Við gátum ekki veitt svona opna heimild því að heimildin er svo opin, herra forseti, að það er eiginlega makalaust. Það stendur þarna, með leyfi herra forseta:

„Þó er ráðherra heimilt, að fengnu samþykki ríkisstjórnarinnar, að breyta þessum fjárhæðum til hækkunar ef verulegar breytingar verða á launaþróun og þjóðhagsforsendum frá afgreiðslu fjárlaga.“

Þarna er sem sagt veitt heimild í lögum til að borga út fé úr ríkissjóði án nokkurrar takmörkunar í rauninni að við fáum séð. Þess vegna vorum við ekki með í því að nefndin flytti þetta. Hins vegar vorum við með á afgreiðslu út úr nefndinni því að þá lágu þessar upplýsingar fyrir eða eitthvað í þá veru en þetta eru að sjálfsögðu stórar tölur. Það er mjög stór hópur sem fær þessar bætur, ætli það séu ekki um 50–60 þúsund manns sem eru háðir bótum á Íslandi, ellilífeyrisþegar og örorkulífeyrisþegar, og svo börn og makar, makarnir reyndar í miklu minna mæli. Þetta eru stórar upphæðir og það er mjög vandasamt að setja þetta inn í kerfið vegna þess að almannatryggingakerfið er ekki beint einfalt, það er ekki þannig að hver einasti Íslendingur skilji það til hlítar. Ég held reyndar að það séu bara tveir, þrír sem skilja það til hlítar eða telji sig skilja það og kannski ekki til hlítar. En það er svo erfitt að sjá fyrir hvaða afleiðingar þetta hefur í kerfinu, t.d. 50 þús. kr. eingreiðslan sem á að koma núna ef SA samþykkir samningana. Hvað gerist svo ef þeir verða ekki samþykktir, hvað ætla menn að gera þá? Þá er búið að hækka bótaflokkana og engir samningar. Það er sem sagt erfitt að sjá hvernig þessi eingreiðsla á að koma inn í kerfið þar sem mætast 70 milljarðar frá lífeyrissjóðunum á ári og 50 milljarðar frá Tryggingastofnun í vasa eitthvað um 40 þúsund manns. Lífeyririnn frá lífeyrissjóðunum er nefnilega verðtryggður miðað við vísitölu, hann hefur hækkað stöðugt eins og verðlag þegar aðrir í landinu eru flestir að fá lækkuð laun eða föst laun, þ.e. að launin hafa ekkert hækkað og bæturnar frá Tryggingastofnun hafa heldur ekki hækkað í nokkurn tíma. Það er því mjög erfitt að sjá hvernig þetta samspil verður þegar 50 þúsund krónurnar og lágmarkslaunin koma inn í þetta.

Við treystum því að sérfræðingar ráðuneytisins og Tryggingastofnunar hafi leyst þetta þokkalega og það eru komnar ákveðnar hugmyndir. Þær liggja reyndar ekki fyrir, ekki á endanlegu formi. Það er ekki einu sinni búið að samþykkja þetta og það á að fara að borga þetta út eftir 10 daga og því liggur nokkuð mikið við. Ég skil alveg að menn vilji fá þetta samþykkt sem allra fyrst vegna þess að vinnslan hefur öll verið einhvern veginn á síðasta snúning og það þarf að setja þetta inn í tölvurnar áður en þær fara að dreifa þessu út og millifæra. Allt tekur þetta tíma. Okkur er því nokkur vandi á höndum, þingmönnum, hvað við eigum að gera.

Það vill svo til að í stjórnarskránni stendur, með leyfi forseta, mig minnir að það sé 41. gr., og ég vitna nokkuð oft í stjórnarskrána af því að ég hef svarið eið að henni og ber mikla virðingu fyrir henni:

„Ekkert gjald má greiða af hendi, nema heimild sé til þess í fjárlögum eða fjáraukalögum.“

Það má sem sagt ekki greiða þessa peninga, láta þá af hendi, nema það liggi fyrir í fjárlögum eða fjáraukalögum. Ég tilkynnti við 1. umr. að ég mundi vilja leggja fram fjáraukalög. Við höfum sérstaka nefnd á Alþingi, herra forseti, sem sér um fjárlögin og heitir hv. fjárlaganefnd. Það væri náttúrlega eðlilegast að hún fengi það erindi að flytja fjáraukalög um þessi útgjöld þannig að það megi greiða þau samkvæmt 41. gr. Nú hafa menn sagt að í áratugi hafi þetta ekki verið gert svoleiðis en það bætir það ekki. Mér er eiginlega nokk sama um það þó að menn hafi ekki farið að stjórnarskránni í áratugi, ég vil bara að menn fari að taka upp skarpari vinnubrögð og það er alveg hægt. Það má koma með fjáraukalög hversu oft sem mönnum sýnist á ári hverju. Núna liggur fyrir að það á að fara að greiða þessi útgjöld út og meira að segja stórar upphæðir, því að mér skilst að eingreiðslan kosti 2 milljarða ein sér, bara í júní. Þetta eru 2 milljarðar sem þarf að borga út í júní og ég mundi gjarnan vilja að fyrir því væri heimild í fjáraukalögum.

Nú átta ég mig á hraðanum líka og það er mikill hraði á þessu öllu saman, menn þurfa að samþykkja þetta helst sem lög í dag og mér er þá vandi á höndum. Það sem gæti róað mig væri að fjárlaganefnd eða formaður fjárlaganefndar lýsti því yfir að það kæmu fjáraukalög við fyrsta tækifæri, sem væri þá væntanlega á föstudag í næstu viku eða á mánudaginn þar á eftir. Það væri fyrir 1. júní þannig að við mundum þá halda þetta ákvæði stjórnarskrárinnar að það séu komin fjáraukalög fyrir þessari útgreiðslu. Það mundi gleðja mig mjög mikið ef það lægi fyrir og þá liði mér vel með þetta allt saman.

Svo er annað. Inn í þetta vantar náttúrlega hluti eins og fæðingarorlof. Ætla menn ekkert að hækka það? Það vantar margt, margt fleira, ég man það bara ekki í svipinn, velferðarkerfið er svo stórt. Lánasjóðurinn, hvað ætla menn að gera þar? Þar eru reyndar mjög sterk einkenni um oftryggingu, mikla oftryggingu. (Gripið fram í: Það er búið að hækka hann.) Hann var hækkaður um 10% en ekki í tengslum við kjarasamninga, ég veit ekki hvort menn hafi vitað hver yrði niðurstaðan í kjarasamningnum en þar var hækkað um 10%, það er rétt. Ég er að reikna út dæmi sem setja að mér ákveðinn hroll, t.d. fær námsmaður sem er einstæður með fjögur börn 210 þús. kr. fyrir börnin. Síðan fær hann að sjálfsögðu meðlög eins og aðrir sem eru einstæðir og svo fær hann að sjálfsögðu barnabætur í skattkerfinu því að hann hefur engar tekjur. Og ef hann er öryrki fengi hann náttúrlega barnabætur þaðan líka. Ég veit það ekki, ég er ekki búinn að telja saman hvað hann fær mikið fyrir börnin, ég hugsa að það sé nú farið að slaga og allar hans bætur hátt upp í hálfa milljón á mánuði. Þetta þarf náttúrlega að reikna út, herra forseti.

Mér finnst menn í velferðarkerfinu alltaf vera að skoða eina skúffu í stórri kommóðu, þeir eru alltaf að laga þennan enda og gleyma öllum hinum vegna þess að það hefur enginn yfirsýn. Ég er að reyna að neyða menn til að horfa á alla kommóðuna með góðu eða illu. Hér erum við að hækka ákveðna þætti. Hæstv. ráðherra segir að það sé búið að laga lánasjóðinn með ákveðnum hætti og það er ekki getið um það hér að það hafi verið gert, því að það getur verið að öryrki sé námsmaður, sem er bara alls ekkert sjaldgæft sem betur fer, og þá fær hann bæði þessa hækkun og líka hækkunina hjá lánasjóðnum og margföld réttindi.

Nú má segja að ég sé leiðinlegur að vera að tala alltaf svona illa um útgjöldin og bæturnar en það vill svo til, og ég vil gjarnan fá það upplýst fyrr en seinna, að þeir sem eru vinnandi standa undir þessu, fólkið í sjávarútvegsfyrirtækjunum, sem nú er reyndar verið að gera atlögu að, fólkið í verslunum og allir sem ekki eru opinberir starfsmenn, því að opinberir starfsmenn fá sín laun frá hinum og lífeyrisréttindi og allt saman, þeir sem eru ekki opinberir starfsmenn og á almennum markaði, ég vil fá að vita hvað þeir eru margir og hvað þeim hefur fækkað mikið á síðustu árum því að brottflutningurinn er að ég hygg að miklu leyti þessi hópur. Ég hugsa að þar sé ekki eins mikið um opinbera starfsmenn og kannski alls ekki mikið um bótaþega. Bótaþegarnir eru um 13–14 þúsund öryrkjar, 30 þúsund aldraðir og svo má segja að opinberum starfsmönnum sé líka greitt með skattpeningum þeirra sem ekki eru opinberir starfsmenn. Ég vil fá að kanna hvernig þetta hlutfall er að þróast, þ.e. hve margir lifa á bótum eða eru opinberir starfsmenn og hve margir þeir eru sem greiða og standa undir þessu og borga sífellt hærri og hærri skatta. Þess vegna held ég að það sé mjög mikilvægt að þetta komi inn í fjáraukalög. Það vill svo til að formaður fjárlaganefndar var staddur hér áðan, hv. þingmaður, og það væri gaman að heyra hvort hann gæti gefið jáyrði við því að fjárlaganefnd skoðaði það að koma með fjáraukalög í þessu sambandi.

Að sjálfsögðu finnst mér mjög brýnt að bótaþegar njóti sömu kjara og launþegar eftir þessa kjarasamninga og þó að kjarasamningarnir gætu að mínu mati verið óraunhæfir, ég veit það ekki, ég á eftir að sjá það, ég geri ráð fyrir að ráðuneytið hafi kannski eitthvað skoðað það hvort kjarasamningarnir hafi verið óraunhæfir og hvort fólki muni fjölga mikið í atvinnuleysisbótum og þar þurfi að bæta sérstaklega inn í útgjöldum vegna atvinnuleysisbóta. Það yrði áhugavert að skoða það.

Ég ætla ekki að tefja þetta mál, ég tel mjög brýnt að það nái fram, en mér þætti gott þó að þessu máli yrði kannski ekki vísað til fjárlaganefndar að fjárlaganefnd fengi ávæning af því að hér sé verið að fara út í gífurlega mikil fjárútlát, upp á 6,8 milljarða samtals, að það sé hugað að stjórnarskránni og að fyrir liggi fjáraukalög upp á þessa upphæð.

Svo vil ég geta þess, herra forseti, að auðvitað gefa kjarasamningarnir ríkissjóði gífurlegar tekjur. Hér er sagt að 50 þúsund kallinn kosti 2 milljarða. Mér sýnist að ef allur vinnumarkaðurinn, 160 þúsund manns, opinberir starfsmenn eru reyndar ekki búnir að semja, fá 50 þúsund kr. hver séu það 8 milljarðar sem verði borgaðir út í júní. Ef við gerum ráð fyrir að staðgreiðslan sé að meðaltali 40%, hún getur hugsanlega verið lægri, gæfu 40% af 8 milljörðum 3,2 milljarða sem er meira en við erum að borga hér í bæturnar. Það má vel vera að fjáraukalögin sýni að ríkissjóður verði í plús en ég vil bara að það liggi fyrir. Ég vil að það liggi fyrir þegar bæturnar verða greiddar út 1. júní eða hvenær sem það verður, ég þekki ekki nákvæmlega hvenær Tryggingastofnun greiðir út, að þá liggi fyrir fjáraukalög sem heimili þessa útgreiðslu í samræmi við stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.