139. löggjafarþing — 131. fundur,  20. maí 2011.

almannatryggingar.

797. mál
[13:55]
Horfa

Frsm. fél.- og trn. (Guðfríður Lilja Grétarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Mér er rétt og skylt að reyna að svara þeim spurningum sem hér hafa verið lagðar fram. Ég vil fyrst ítreka þá staðreynd að allir þingmenn félags- og tryggingamálanefndar voru fylgjandi því prinsippi sem um ræðir. Þingmenn allra flokka voru fylgjandi því að bætur ættu að hækka. Það voru hins vegar ýmsar spurningar eins og hér hefur komið fram, um vinnulagið, um gögn sem fyrir lægju og svo eins og hv. þm. Pétur Blöndal kom inn á um fjárlög og aukafjárlög.

Ég ætla að svara fyrst spurningum hv. þm. Ragnheiðar Elínar Árnadóttur en hún spurði hvort í nefndarálitið vantaði ekki eða kannski í hina almennu umræðu kostnað vegna atvinnuleysistrygginga. Það er rétt hjá henni, hér kemur ekki fram kostnaður við hækkun atvinnuleysistrygginga. Það frumvarp sem hér um ræðir snýst einvörðungu um almannatryggingarnar og þess vegna snúa þær tölur sem hér koma fram að almannatryggingaþættinum og það er skýringin á því.

Hv. þingmaður spurði einnig hvað það þýddi í raun, hver merkingin væri í orðunum „verulegar breytingar“, þ.e. í setningunni: „Skilyrði hækkunar samkvæmt ákvæðinu er að verulegar breytingar verði á launaþróun og þjóðhagsforsendum frá afgreiðslu fjárlaga sem leiði til hækkunar.“

Mig langar af þessu tilefni að taka fram að bætur almannatrygginga eru náttúrlega samkvæmt lögum nr. 100/2007 en þar segir:

„Bætur almannatrygginga, svo og greiðslur skv. 63. gr. og fjárhæðir skv. 22. gr., skulu breytast árlega í samræmi við fjárlög hverju sinni. Ákvörðun þeirra skal taka mið af launaþróun, þó þannig að þær hækki aldrei minna en verðlag samkvæmt vísitölu neysluverðs.“

Þarna var sett inn bráðabirgðaákvæði sem í rauninni aftengdi þetta. Það sem við erum að gera núna er því að gefa aftur þessa heimild til að þessar bætur hækki eins og allir eru í prinsippinu sammála um að þær eigi að gera vegna þess einmitt að það verða augljóslega verulegar breytingar í launaþróun í kjölfarið á kjarasamningum.

Varðandi fjárheimildina, þ.e. að þetta sé greitt út án þess að fyrir því sé heimild í fjárlögum, þá vil ég árétta eins og kom fram í máli hv. þm. Péturs Blöndals að nefndin kallaði einmitt eftir, að ósk hv. þingmanna, gögnum og útreikningum og hefur fengið það. Það er auðvitað rétt að það ætti að vera samræmi á milli þess sem þingið ákveður og kostar peninga úr ríkissjóði og síðan heimilda til fjárveitinga. Ef þessu væri fylgt eftir til hins ýtrasta þyrfti náttúrlega að bera kjarasamninga sem hafa í för með sér útgjaldaauka fyrir ríkissjóð, t.d. launahækkanir ríkisstarfsmanna, undir þingið líka. Er ekki svo?

Hérna erum við náttúrlega að tala um sambærilegan hlut, þ.e. að ákveða að þeir sem hafa framfæri sitt frá almannatryggingum fái sambærilegar kjarabætur og hafa verið á samningaborði aðila á vinnumarkaði núna gagnvart ríkisstarfsmönnum. Þetta er vinnulagið sem hefur verið viðhaft. Við höfum kallað eftir gögnum og útreikningum og höfum fengið það núna en stóra málið er auðvitað prinsippið, að tekjulægsta fólkið þurfi ekki að bíða lengur eftir sínum kjarabótum en nauðsyn krefur og það fái þetta útgreitt um næstu mánaðamót. Um það snýst málið að þessu sinni en við hlustum á það sem hér er sagt og eins og hv. þm. Pétur Blöndal sagði fær fjárlaganefnd ávæning af þeim umræðum sem hér hafa farið fram.