staða íslenskrar tungu og íslensks táknmáls.
Virðulegi forseti. Ég tek undir með hv. formanni menntamálanefndar að þetta er mikilvægt mál og gleður mig mjög að það sé nú komið hér á lokasprett. Ég vona svo sannarlega að Alþingi lánist að ljúka þessu máli því að ég held að það skipti mjög miklu fyrir framtíð íslenskrar tungu að við náum að festa stöðu hennar í lög en ekki síður að íslenskt táknmál verði viðurkennt sem fyrsta mál þeirra sem það nota. Ég tek einnig undir breytingartillögur hv. menntamálanefndar sem hefur lagt mikla vinnu í málið og m.a. skoðað þar stöðu blindra. Ég fagna því mjög að þetta mál nái fram að ganga.