139. löggjafarþing — 132. fundur,  20. maí 2011.

atvinnuleysistryggingar og réttarstaða starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum.

830. mál
[14:28]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Bara svo maður skilji þetta — það er náttúrlega ljóst að þetta er fjármagnað allt saman af tryggingagjaldinu eins og ýmislegt annað. Hæstv. ráðherra þekkir þessa hluti frá mörgum hliðum, enda fyrrverandi formaður fjárlaganefndar og er vel að sér í þessu. Getur hæstv. ráðherra sagt okkur skýrt hvernig hugsunin er að mæta þessum útgjöldum? Er eitthvað sem tryggingagjaldið er að fjármagna núna sem er fyrirséð að muni lækka, ætla menn að lækka einhverja útgjaldapósta sem tryggingagjaldið fjármagnar núna? Eða er hugsunin að hækka tryggingagjaldið? Ég mundi vilja fá þetta fram.

Mér fannst hæstv. ráðherra tala skýrt að þetta væri útgjaldaaukning, eins og kemur fram í umsögn fjármálaráðuneytisins, sem væri fjármögnuð af tryggingagjaldinu. Þá er í rauninni spurningin sú: Munum við sjá einhver útgjöld sem eru fjármögnuð af tryggingagjaldinu lækka sem þessu nemur eða verður tryggingagjaldið hækkað?