139. löggjafarþing — 132. fundur,  20. maí 2011.

atvinnuleysistryggingar og réttarstaða starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum.

830. mál
[14:50]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. ráðherra sagðist vonast til þess að þetta yrði fullnægjandi svar. Ég vil bara nota tækifærið og lýsa yfir að það var til mikillar fyrirmyndar. Þetta var bæði málefnalegt og yfirgripsmikið svar og mættu aðrir hæstv. ráðherrar taka hæstv. velferðarráðherra sér til fyrirmyndar þegar kemur að svörum í þinginu.

Ég er ánægður að heyra nálgun hæstv. ráðherra varðandi skurðstofurnar suður frá. Það segir sig sjálft að vanda verður til verka. Það eru mörg álitaefni en líka mörg tækifæri. Þau eru ekki bara bundin við Suðurnesin. Við höfum byggt upp margar heilbrigðisstofnanir víðs vegar um landið sem gætu afkastað meiru. Þetta er ekki bara heilbrigðismál heldur líka atvinnumál fyrir viðkomandi byggðir. Við eigum mikið af frábæru heilbrigðisstarfsfólki sem getur nýtt tækifærin ef við sköpum aðstæðurnar.

Það er alveg rétt hjá hæstv. ráðherra að gengið er ákveðin ógn þegar við keppum um starfsfólk við aðrar Norðurlandaþjóðir en í því felast líka mikil tækifæri þar sem hægt er að gera hlutina hér mun ódýrara út af íslensku krónunni og með sömu og jafnvel meiri gæðum en í þeim löndum sem við berum okkur saman við.

Ég vil bara þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og hvet hann til að kynna sér það sem var á stefnuskrá þeirrar ríkisstjórnar sem við báðir studdum en eftirmenn mínir létu hjá líða að framkvæma. Það var sameiginlegt norrænt heilsusvæði sem átti að gera það að verkum að t.d. fólk annars staðar að á Norðurlöndunum gæti komið hingað til lands og fengið meðferð sína greidda úr sameiginlegum sjóðum. Í því væru fólgin gríðarleg tækifæri, bæði fyrir opinberu stofnanirnar (Forseti hringir.) og þá aðila sem vildu hasla sér völl á því sviði.