139. löggjafarþing — 132. fundur,  20. maí 2011.

atvinnuleysistryggingar og réttarstaða starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum.

830. mál
[14:52]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að við deilum þeirri skoðun að finnast tækifærin ótalmörg. Við þurfum auðvitað að skoða hvernig við getum nýtt þau. Við höfum verið að tala um ferðatengda heilbrigðisþjónustu. Það er eins og ég segi mjög mikið af henni í gangi og kannski ekki hvað síst forvarnastarf eins og í kringum Bláa lónið og fleira sem væri hægt að nefna.

Það er líka mikilvægt að vara sig á í þessu eins og öðru að hingað munu koma einhverjir aðilar sem vilja nálgast þetta með skyndigróða í huga eða til að ná einhverjum markaði tímabundið. Við vitum að það er mikil samkeppni um þetta í heiminum öllum. Asíulönd sinna mikilli heilbrigðisþjónustu fyrir Bandaríkjamenn og Evrópu. Við eigum ekki að láta hanka okkur á því að fara í þá samkeppni, sem sagt að vera á markaðnum á láglaunakjörum, heldur eigum við að reyna að helga okkur því að gera þetta vel og vera þannig með sérstöðu.

Það er rétt sem hér kemur fram að við höfum heilmikið að sækja til annarra Norðurlandaþjóða og getum verið í samstarfi við þær. Þar hefur náðst verulegur árangur. Ég veit ekki betur en honum hafi verið náð þegar hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson var ráðherra, þ.e. samstarf við Færeyinga og Grænlendinga sem hefur þróast jafnt og þétt. Ég held að það megi alls ekki vanmeta. Við þá er mjög jákvætt samstarf.

Eins og hefur komið fram eru öflugar heilbrigðisstofnanir úti á landsbyggðinni sem gætu gegnt stærra hlutverki ef við værum með kaupendur að þjónustunni, en ef ríkissjóður er eini kaupandinn þá gagnast það illa. Við þurfum líka að passa okkur á þeirri hættu að reyna ekki að auka þörfina fyrir heilbrigðisþjónustu. Það er í andstöðu við markmiðið með öllu okkar starfi sem er að hindra að menn þurfi á heilbrigðisþjónustu að halda. Þannig að þetta er fín lína.

Umræðan er góð og ég vona að okkur miði áfram í þessu máli. Við ræðum þetta nú í tengslum við atvinnumál af því að við þurfum að sækja fram þar sem tækifærin eru í boði.