139. löggjafarþing — 132. fundur,  20. maí 2011.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

828. mál
[15:04]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Mikilvægt er að þingið geti sýnt með réttum og viðeigandi hætti að unnt sé að bregðast við þegar þörf er á. Það er svo sannarlega verið að gera með þessu máli og má í rauninni segja að þó að frumvarpið líti sakleysislega út sé innihaldið býsna stórt og gott. Við þekkjum þær hörmungar sem dunið hafa yfir núna út af eldgosi og öskufalli en síðan er ekki síst verið að bregðast við aðstæðum sem komu upp vestur á fjörðum vegna díoxínmengunar, svo dæmi sé tekið. Ljóst er að bændur þarna, hvort heldur fyrir vestan eða á Suðurlandi, voru ekki í neinni aðstöðu til að bregðast við, þ.e. ekki er hægt að saka þá beint um þau áhrif sem af þessu urðu.

Hér er verið að breyta nokkrum lögum. Það snýr aðallega að Bjargráðasjóði að lengja aðstoð og styðja áfram við bændurna. Það er ljóst að við náttúruhamfarir er erfitt að eiga, við getum aldrei komið í veg fyrir að slíkt eigi sér stað eða komi illa niður á bændum og búfénaði og þar af leiðandi framleiðslu á matvælum fyrir Ísland, Íslendinga. Mikilvægt er að við lærum af þeim atburðum sem áttu sér stað á Suðurlandi og séum í stakk búin til að bregðast við náttúruhamförum sem þessum, sem geta skollið á með stuttum fyrirvara eins og hefur sýnt sig, og séum með öll viðbrögð í réttum farvegi, búnað, tæki og tól og slíkt. Enda þótt björgunarmenn, lögregla og allir sem komu að málum hafi staðið sig mjög vel er örugglega eitthvað sem læra má af þessu.

Þetta er ekki síður hluti af því, þegar við ræðum mál sem þetta, að það skiptir miklu að geta sem fyrst komið af stað framleiðslu og tryggt búskap á jörðum þegar horft er til matvælaöryggis Íslands og að sjálfsögðu ekki síður framfærslu þeirra fjölskyldna sem búa og vinna á þessum svæðum. Við höfum nú séð að fleiri lönd búa við það að yfir þau dynja náttúruhamfarir, við sjáum núna aftur fréttir af miklum eldum í Rússlandi, enn á ný loga þar miklir skógar- og kjarreldar. Þessir eldar munu eflaust hafa þau áhrif að kornuppskera mun minnka aftur eða jafnvel minnka svo mikið að það verði skortur á korni á markaði og þá hækkar matvælaverð. Það segir okkur Íslendingum um leið að við verðum að hafa okkar kerfi þannig að við getum tryggt matvælaöryggi okkar og fæðuöryggi. Matvælaöryggið snýr að sjálfsögðu að öryggi matvælanna, fæðuöryggið að því að við höfum nóg í okkur.

Við eigum, eins og ég sagði áðan, að læra af því sem þarna er gert og ég tel að að nokkru leyti sé verið að gera það með þessu frumvarpi, þ.e. að lengja í þeim tímamörkum sem höfðu verið sett því að það tekur einfaldlega lengri tíma að bregðast við.

Að mínu mati er ekki hægt að deila á einn eða neinn eða kenna einhverjum hjá ríkisvaldinu um að hér hafi verið staðið rangt að verki. Eflaust eru einhverjir sem hafa einhverjar sögur um slíkt að segja og þá ber bara hlusta á þær og læra af því en ég er viss um að allur ásetningur hefur verið góður varðandi þessi mál.

Varðandi það atvik sem átti sér stað vestur á fjörðum er ljóst að mengun frá sorpbrennslustöð orsakaði það að gæði afurða voru talin vafasöm og því varð að skera niður bústofninn. Það kann að vera að þetta frumvarp klári ekkert endilega það mál en það kemur a.m.k. til móts við tjón þeirra bænda sem urðu fyrir þessu. En þetta er eitt af þeim málum sem nauðsynlegt var að kæmu fram á Alþingi til að koma til móts við þær aðstæður sem höfðu skapast.

Frú forseti. Ég fagna þessu frumvarpi og læt máli mínu lokið í bili í það minnsta.