139. löggjafarþing — 134. fundur,  27. maí 2011.

svör við fyrirspurnum.

[10:35]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég tek undir þær athugasemdir sem hér hafa komið fram og bið hæstv. forseta að beita sér af mikilli hörku í því að ráðherrar svari fyrirspurnum innan þess tímaramma sem þeim er veittur. Það er vitanlega sláandi, frú forseti, að heyra að 88 spurningum er ósvarað og níu skýrslubeiðnum til viðbótar frá framkvæmdarvaldinu gagnvart Alþingi. Ég verð að viðurkenna að ég hafði ekki tekið það saman sjálfur.

Þá hljótum við að spyrja okkur: Getur verið að svarinu sem hv. þingmaður biður um hafi verið laumað inn rétt fyrir páska líkt og skýrslunni um endurreisn bankanna þannig að lítið fari fyrir því svari? Það er möguleiki að svo sé, þetta hafi farið fram hjá okkur því að mér sýnist á öllu, frú forseti, að fjármálaráðherra hafi gefið tóninn og stundi þau vinnubrögð að lauma inn gögnum þegar vonast er til að það veki litla athygli eins og skýrslan um endurreisn bankanna hefur borið með sér.