139. löggjafarþing — 134. fundur,  27. maí 2011.

svör við fyrirspurnum.

[10:45]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. forseta fyrir skjót viðbrögð við beiðni minni um aðstoð við að ná fram þessu svari. Hæstv. utanríkisráðherra spurði mig í athugasemd áðan hversu oft ég hefði komið hér upp í þennan stól til að kalla eftir því. Ég hef ekki gert það áður. Hæstv. utanríkisráðherra situr oft í salnum sem margir aðrir hæstv. ráðherrar mættu taka sér til fyrirmyndar, hvort heldur er undir liðnum um störf þingsins eða öðrum, og ætti því að vita að kem ég mjög sjaldan upp undir liðnum um fundarstjórn forseta. Ég er hins vegar búinn að tala við starfsmenn þingsins og biðja þá um að gera þetta því að ég hef ákveðinn skilning á því álagi sem er í vissum ráðuneytum, en þegar komnir eru sex mánuðir og þingi að ljúka er þolinmæði minni líka lokið. Þess vegna kom ég upp undir þessum lið hér í dag.