139. löggjafarþing — 134. fundur,  27. maí 2011.

svör við fyrirspurnum.

[10:49]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Það er mikilvægt að hæstv. forseti ræði það við forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar að spurningum sé yfirleitt svarað. Hér kemur hæstv. utanríkisráðherra og vitnar í eitthvert atvik 2004 sem ég sem unglingur á þingi þekki vitanlega ekki til en hæstv. ráðherra er reynslumikill maður og örugglega minnisgóður. En hér koma ráðherrar hvað eftir annað upp í munnlegar fyrirspurnir eða óundirbúnar og svara engu eða svara út í hött. Við höfum líka séð dæmi um svör frá ráðuneytunum, t.d. frá forsætisráðuneyti, þar sem ekki er svarað heldur snúið út úr þeirri spurningu sem til ráðuneytisins er beint. Það gerir það að verkum að hv. þingmenn þurfa að fara á ný af stað með fyrirspurnir, skrifa nýja fyrirspurn og í sumum tilfellum eru þær þá bútaðar niður og sendar á öll ráðuneytin vegna framkomu framkvæmdarvaldsins við þingið og þingmenn. Það er þetta, frú forseti, sem við erum að gera kröfu um að verði lagað og að forseti grípi inn í.