139. löggjafarþing — 134. fundur,  27. maí 2011.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 102/2010 um breytingu á X. viðauka við EES-samninginn.

544. mál
[11:03]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Það velkist enginn í vafa um það að samkvæmt 102. gr. samningsins höfum við og Noregur og Liechtenstein rétt til að setja ákveðna fyrirvara við ákveðnar tilskipanir. Ég held að það sé réttur sem við eigum að hafa í huga. Við eigum að virkja EES-samninginn mun betur en gert hefur verið óháð því að við erum í aðildarumsóknarferli hjá Evrópusambandinu. Við verðum engu að síður að styrkja þingið.

Það er nokkuð um liðið síðan hv. þm. Bjarni Benediktsson lagði fram þessar tillögur með fulltingi annarra þingmanna úr öllum flokkum. Ég heyri að hv. þingmaður er sammála þeim og ég held að ég verði líka að leita liðsinnis hæstv. forseta sem hefur staðið sig vel í þeim málaleitunum sem við þingmenn í stjórnarandstöðunni höfum sett fram fyrr í dag. Ég held að forseti þingsins verði að styðja okkur í því að efla þingið þegar kemur að því að fylgja eftir EES-samningnum. Við erum búin að tala um þetta, tala og tala, allir mjög velviljaðir en þessu er ekki fylgt nægilega eftir. Þetta verðum við að gera, við verðum að efla okkur og styrkja á þessu sviði varðandi EES-samninginn algjörlega óháð umsóknaraðildarferlinu. Það er mín skoðun.

Ég er hins vegar alveg sammála hv. þingmanni um afstöðu Norðmanna, hún er skiljanleg. Ég held að það sé hægt að tína til mörg önnur mál sem við Íslendingar hefðum betur verið á varðbergi gagnvart, hvort sem er í tíð þessarar ríkisstjórnar eða fyrri ríkisstjórna. Ég nefni raforkufrumvarpið og raforkudreifinguna. Ég held að það hefði verið nær lagi að við hefðum reynt að koma mönnum í skilning um hinn íslenska veruleika en það var ekki gert. Allir flokkar tóku þátt í því. Núna stöndum við frammi fyrir vandamáli sem tengist innstæðutilskipuninni og ég held að það sé nokkuð sem við höfum enn þá í hendi og höfum vald á. Þá eigum við að hugsa um það hvernig við getum sýnt fram á að íslenski veruleikinn er hugsanlega með öðrum hætti en annars staðar í Evrópu. Það er hægt að tína fram mörg mál en ég er hins vegar fegin því að hv. þingmaður skilur að það er hugsanlega hægt að beita þessari grein, (Forseti hringir.) 102. gr., og það er hægt að tala menn til skilnings um það af hverju lönd beita ákvæðinu.