139. löggjafarþing — 134. fundur,  27. maí 2011.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 102/2010 um breytingu á X. viðauka við EES-samninginn.

544. mál
[11:05]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Árni Þór Sigurðsson) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég ítreka bara það sem ég sagði áðan, reglurnar um þinglega meðferð EES-mála hafa verið samþykktar og eru komnar til framkvæmda.

Ég tók þá afstöðu á vettvangi utanríkismálanefndar þegar þessar reglur höfðu tekið gildi að senda þingmál sem varða EES-samninginn úr utanríkismálanefnd til umfjöllunar eða álits í einstökum fagnefndum eftir því sem tilefni þætti til til að tryggja að fleiri þingnefndir kæmu að umfjöllun, ekki síst fagnefndir á einstökum sviðum. Ég varð reyndar var við að í einstökum þingnefndum þótti mönnum nóg um og töldu ekki ástæðu til að fá mál til umfjöllunar. Afstaða mín er hins vegar óbreytt, ég tel að utanríkismálanefnd eigi að gera það, hún eigi að minnsta kosti í öllum meginatriðum að senda þingmál til umfjöllunar í einstökum fagnefndum. Þær geta þá tekið afstöðu til þess hvort þær vilja veita álit sitt á viðkomandi gerð eða ekki. Í reglunum um þinglega meðferð er talað sérstaklega um að einstakar fagnefndir fái þingmálin sem varða fagsvið þeirra til umfjöllunar og ég tel að það sé til bóta og geri umfjöllun þingsins um þessi mál vandaðri en ella væri.