139. löggjafarþing — 134. fundur,  27. maí 2011.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 102/2010 um breytingu á X. viðauka við EES-samninginn.

544. mál
[11:07]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Hv. formaður utanríkismálanefndar hefur svarað þeim spurningum sem hér komu fram um þá tilteknu þingsályktunartillögu sem hér liggur fyrir til samþykktar. Efni þeirrar tilskipunar sem hún varðar er til að auka traust á rafrænum undirskriftum í viðskiptum yfir landamæri.

Að því er varðar ákvörðun Norðmanna um pósttilskipunina er rétt að rifja það upp að það voru ekki forustumenn í Noregi sem tóku þá ákvörðun. Hún var tekin á landsfundi Verkamannaflokksins með meiri hluta atkvæða þar og síðan á eftir að vinna úr því. Það er allsendis óvíst með hvaða hætti það verður gert. Þetta hefur aldrei gerst áður og sú grein sem hv. þingmaður vísar til hefur aldrei verið virkjuð. Þetta var hins vegar eitt af þremur aðalatriðum sem menn ræddu hérna 1993 og 1994 þegar EES-samningurinn var til umræðu. Þá gerðu menn ráð fyrir því að ríkin mundu miklu oftar beita því höfnunarvaldi sem þau hafa og menn veltu því fyrir sér með hvaða hætti brugðist yrði við. Ég minnist þess að þá var þáverandi utanríkisráðherra þeirrar skoðunar að líklegast væri, og byggði það á samtölum og samningaviðræðum við kollega í Evrópu, að viðkomandi hluti samningsins yrði óvirkjaður, þ.e. viðurlögunum yrði beitt í samræmi við tilefnið.

Ég kem þó ekki upp út af þessu. Ég ætla að taka þátt í þeirri umræðu sem hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir hóf. Hún er þeirrar skoðunar að þingið þurfi að standa betur að því að tryggja hagsmuni Íslands gagnvart EES-samningnum. Hún segir að það sé algjörlega óháð umsókn Íslands að Evrópusambandinu. Ég er algjörlega sammála hv. þingmanni um þetta. Ég lít líka svo á að þetta séu tveir aðskildir hlutir, þ.e. annars vegar hvort við erum að sækja um aðild að Evrópusambandinu og hins vegar hvernig við stöndum að því að hafa allan hag af EES-samningnum og tryggja hagsmuni okkar. Þær þinglegu reglur sem þingið hefur samþykkt, sem meðal annars fela það í sér að nú er málum deilt út til fagnefnda, skipta mjög litlu máli í því. Þær geta hugsanlega frekar leitt til þeirrar niðurstöðu að við stöndum allt í einu frammi fyrir máli sem við teljum ótækt að samþykkja vegna íslenskra hagsmuna og þá verðum við að fara þá leið sem Norðmenn eru að fara núna. Þá er engin önnur leið.

Við höfum, og það er niðurlægingin sem við búum við í þessu kerfi, enga möguleika á að setja einhverjar reglur í þinginu og breyta viðkomandi þingmáli. Við þurfum að gleypa þetta blóðhrátt. Það eina sem við gátum gert samkvæmt hinum upphaflega umbúnaði sem samið var um á síðasta áratug var að reyna að hafa áhrif á gerð tilskipana nálægt uppruna þeirra sem var framkvæmdastjórnin. Síðan hefur Evrópusambandið gjörbreyst og það er efni máls míns. Evrópuþingið hefur fengið miklu meiri völd. Þegar samningurinn var samþykktur var Evrópuþingið meira og minna valdalaust. Það var ráðgefandi og gat litlu sem engu breytt. Í dag getur samráðsferlið sem búið er að koma upp oft leitt til þess, og leiðir oft til þess, að þegar málin eru farin í gegnum allt kerfið og komin út úr Evrópuþinginu er kannski búið að gjörbreyta þeim. Það er þetta sem ég held að við hv. þm. Þorgerður K. Gunnarsdóttir séum sammála um að við þurfum með einhverjum hætti að snúa okkur að.

Við eigum að skoða til dæmis með hvaða hætti Norðmenn haga sér gagnvart Evrópuþinginu. Ég þori ekki að fullyrða hversu marga menn þeir hafa í sérstakri skrifstofu sem sinnir bara þinginu en ég held að þeir telji nokkuð marga tugi. Ég tel að hagsmunir Íslands felist í því að Alþingi sé með aðkomu, skrifstofu eða fulltrúa gagnvart Evrópuþinginu. Ég hef talað fyrir því að þingflokkarnir notfæri sér þann seturétt sem þeir hafa að boði viðkomandi flokkahópa á fundum þeirra. Ég nefni þetta sérstaklega vegna þess að nýlega hef ég verið í sambandi við forustumenn jafnaðarmanna á Evrópuþinginu sem hafa ítrekað þetta boð. Ég ímynda mér að þegar upp kunna að koma mál sem varða hagsmuni Íslands skeri þau á flokkatengsl. Ef það kemur upp mál sem við þurfum sérstaklega að beita okkur í vegna hagsmuna Íslands er ég þeirrar skoðunar að í yfirgnæfandi tilvikum væru íslensku flokkarnir sammála um hvernig ætti að verja hagsmuni Íslands. Þeir gætu þá gert það innan sinna flokkahópa og ég er þeirrar skoðunar að það yrði mjög hlustað á þá þar. Þess vegna tel ég að við eigum að reyna að skapa okkur aðstöðu til að hafa áhrif á ákvarðanir sem eru teknar af Evrópuþinginu. Við sáum það ekki fyrir 1993 og 1994, gerðum okkur ekki grein fyrir því þá að ferillinn mundi breytast með þessum hætti. Alveg burt séð frá umsókn okkar um aðild að Evrópusambandinu þurfum við að laga okkur að þessu. Það gerum við ekki með öðruvísi. Þetta vildi ég leggja inn í þessa umræðu.