139. löggjafarþing — 134. fundur,  27. maí 2011.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 102/2010 um breytingu á X. viðauka við EES-samninginn.

544. mál
[11:15]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Þetta var mjög merkileg ræða. Það mætti kannski súmmera niðurstöðurnar upp í þetta: Menn geta barið hausnum við steininn en það breytir ekki veruleikanum. Það sem kom fram í ræðu hv. þingmanns var einfaldlega samþykki við því sem ég var að segja.

Hv. þingmaður vísaði líka til nefndar sem við sátum saman í undir forustu Björns Bjarnasonar. Þar kom þetta fram, þetta var ein af tillögunum. Þess vegna tek ég þetta hér upp, og geri margoft eins og hv. þingmaður segir, og segi að við eigum að beita öllum þeim möguleikum sem við höfum til að verja íslenska hagsmuni. Hvað sem hv. þingmaður segir að öðru leyti um veruleikann breytir hann ekki því að við höfum enga möguleika aðra en að kyngja þessu blóðhráu frá Brussel eða þá að fara í átök sem felast í þeim gerningi og ákvörðun sem Norðmenn hafa tekið og menn sjá ekki fyrir til hvers muni leiða. Það verður erfitt.

Ef við viljum ekki ganga í Evrópusambandið, sem ég held að vísu að langflestir muni vilja í fyllingu tímans þegar þeir sjá samninginn á borðinu, þá verðum við beita öllum leiðum til að koma íslenskum hagsmunum sem best fyrir í núverandi kerfi. Það gerum við með því að tengjast Evrópuþinginu í gegnum flokkana eða með formlegum hætti með skrifstofu þingsins við Evrópuþingið. Við þurfum að hafa aðkomu gagnvart Evrópuþinginu eins og við höfum þó takmarkaða aðkomu að ferlinu að öðru leyti, einkum í grennd við framkvæmdastjórnina. En þingið hefur forsómað þetta og það er ekki í þágu íslenskra hagsmuna.