139. löggjafarþing — 134. fundur,  27. maí 2011.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 102/2010 um breytingu á X. viðauka við EES-samninginn.

544. mál
[11:18]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta var að mörgu leyti athyglisverð ræða sem hæstv. utanríkisráðherra flutti. Það var svo sem ekkert nýtt í orðum hans frekar en venjulega þegar rætt er um Evrópusambandið eða EES-mál en engu að síður fór ráðherrann hér yfir sýn sína á þessi EES-mál.

Það er alveg ljóst af þeim reglum sem samþykktar hafa verið um meðferð EES-mála að á fyrstu stigum þeirra gerða sem er verið að demba yfir Ísland er hægt að hafa aðkomu, í það minnsta veita upplýsingar til þingmanna og þingsins um hvernig málum er háttað. Það kemur fram í 8. gr. reglna um þinglega meðferð EES-mála. Þar stendur, með leyfi forseta:

„Auk upplýsingagjafar og samráðs skv. 2. gr., um nýjar ESB-gerðir, skal utanríkisráðuneyti veita utanríkismálanefnd upplýsingar um ESB-áætlanir, grænbækur, hvítbækur og önnur stefnumótandi skjöl á vettvangi ESB“ o.s.frv.

Þetta er hægt að gera í upphafi máls þegar vinna framkvæmdastjórnarinnar að undirbúningi nýrra ESB-gerða er í gangi eða á lokastigum hennar. Ef ég skil þetta ferli rétt eru íslensk stjórnvöld með aðkomu að meðal annars ýmsum sérfræðihópum og hafa þar af leiðandi öll tækifæri til þess, a.m.k. í þeim hópum, að koma að athugasemdum.

Eftir hæstv. utanríkisráðherra og reynslu okkar af þessum EES-reglum er hins vegar ljóst að við á þinginu þurfum að herða mjög eftirlit okkar með þessum gerðum og (Forseti hringir.) breyta eins og þarf þeim reglum sem við vinnum eftir.