139. löggjafarþing — 134. fundur,  27. maí 2011.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 102/2010 um breytingu á X. viðauka við EES-samninginn.

544. mál
[11:54]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hygg að umræðan um fullveldið hafi ekki snúist um það hvort það væri meiri eða minni sátt. Ég held að það hafi vakað fyrir okkur öllum, sem vorum að ræða málin á þessum tíma og taka ákvörðun um það, að við vildum að sjálfsögðu ekki gangast undir samning sem við töldum að væri brot á stjórnarskránni. Það voru hins vegar deildar meiningar um þetta. Á sínum tíma voru fengnir fjórir þekktir lögmenn og sérfræðingar á því sviði til að fara yfir málið. Þeir komust að þeirri niðurstöðu að EES-samningurinn væri í samræmi við stjórnarskrána okkar. Það voru hins vegar aðrir sem voru því ósammála og um það snerist málið.

Það sem ég var að reyna að segja í stuttu máli, sem er svo sem ekkert nýtt og margir aðrir hafa sagt á miklu skilmerkilegri hátt, er að það er ljóst mál að aðkomuleiðir okkar að ákvarðanatöku innan Evrópusambandsins eru margvíslegar. Það er alveg rétt að við eigum ekki aðild að Evrópusambandsþinginu, það er rétt. En það breytir ekki því að möguleikar okkar til að hafa áhrif á mál eru margir og margvíslegir. Það er líka ljóst að yrðum við aðilar að Evrópusambandinu væri hlutur okkar að Evrópusambandsþinginu mjög lítill, fáeinir menn í þessum stóra hópi. Ég geri því ekki mjög mikið úr því að með því að gerast aðilar að Evrópusambandinu mundu möguleikar okkar til að hafa áhrif á niðurstöðu, t.d. á þinginu sjálfu, breytast mikið frá því sem nú er. Stóra málið er þetta: Við þurfum að nýta okkur þessa möguleika og reyna að gæta hagsmuna okkar.

Ég veit að það er það sem vakir fyrir öllum sem eru að vinna í þessum málum. Þeir embættismenn sem eru starfandi úti í Brussel eru stöðugt að velta þessu fyrir sér og ráðherrar okkar eru almennt talað að reyna að huga að því að hagsmunir okkar séu ekki fyrir borð bornir. En stóra málið er það að við höfum mörg tækifæri sem við höfum ekki verið að nýta til fullnustu.