139. löggjafarþing — 134. fundur,  27. maí 2011.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 102/2010 um breytingu á X. viðauka við EES-samninginn.

544. mál
[12:00]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Það er mikil halarófa fram undan af EES-málum sem á að mæla fyrir eða reyna að afgreiða í dag og er ástæða til að rýna í allnokkur þeirra.

Ég vil í upphafi koma inn á það sem hv. þm. Einar Kristinn Guðfinnsson nefndi í lok ræðu sinnar varðandi þann mikla fjölda sem okkur virðist að streymi til okkar af EES-gerðum og þingsályktunartillögum sem við þurfum að taka hér í gegn og staðfesta ákvarðanir. Ég hygg eða hef á tilfinningunni, án þess að hafa neinar sannanir fyrir því, að um metfjölda sé að ræða í tíð þessarar ríkisstjórnar og væri áhugavert að taka það saman en auðvitað þarf að staðfesta og fara yfir það en ekki hafa það í flimtingum í ræðustól. Ef rangt er að hér sé um metfjölda að ræða þá er það vitanlega gott.

Því hefur verið velt upp hver áhrifin kunni að vera af því að innleiða þessa gerð. Ég ætla hins vegar að geyma mér efnislega umfjöllun um það heldur ræða örstutt um tvær gerðir sem voru teknar upp sem ég held að hafi verið mikil mistök að láta yfir okkur ganga. Ég veit að þær voru mikið skoðaðar áður en þær voru teknar upp og að ekki var óskað eftir neinum undanþágum eða sérlausnum vegna þeirra, a.m.k. ekki varðandi aðra þeirra. Þetta var annars vegar raforkutilskipun eða raforkulögin sem sett voru í lög í tíð ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks og hins vegar tilskipun um fráveitumál.

Við verðum vitanlega að hafa skilning á því, frú forseti, að margt af þessu er mjög flókið og yfirgripsmikið og kann að vera að Alþingi ætti að vera með einhvers konar eftirlit í Brussel til að hafa betra auga með þessu. Ég veit þó að í sendiráði okkar hefur starfað fólk sem hefur gert sitt besta til að fylgja þessu eftir og staðið sig ágætlega í því. Hins vegar er ekki hægt að komast yfir allt og ýmislegt getur farið fram hjá mönnum. Svo ræður vitanlega vilji stjórnvalda þó nokkuð miklu á hverjum tíma, hvað þau vilja að nái fram að ganga.

Í sjálfu sér þarf ekki að fara mikið yfir áhrif breytinganna sem voru gerðar á raforkulögum. Ég hef lengi sagt að það voru mistök að fara þá leið og hún hefur að mínu viti leitt til hærra raforkuverðs fyrir alla í rauninni og sérstaklega íbúa landsbyggðarinnar. Það væri vel ef við gætum snúið því til baka en ég er ekki viss um að það sé einfalt mál.

Að því er varðar fráveitumálin þá þekkjum við sem höfum starfað í sveitarstjórnum og sveitarfélögum að það voru mikil mistök að setja ekki hnefann í borðið þá. Ég veit að frestir voru veittir varðandi þá tilskipun en það voru mikil mistök að innleiða hana því aðstæður við Ísland eru allt annars eðlis en í mörgum viðmiðunarríkjum Evrópusambandsins. Ef við tökum sem dæmi Danmörk eða jafnvel Holland þar sem eru flóar eða firðir þar sem sjór hreyfist varla í vindi er erfitt að bera það saman við öldurótið í kringum Ísland enda hefur sýnt sig að á fáum stöðum er jafnhreinn og heilsusamlegur sjór og við Íslandsstrendur. Þess vegna hljótum við að spyrja okkur hvaða vit var í því að innleiða tilskipun sem tók mið af aðstæðum sem eru allt aðrar en hér.

Af þessu held ég að við höfum því miður ekki lært. Við höfum ekki lært að betra sé að fara rólega í þetta en að hraða sér.

Ýmislegt annað er hægt að tengja við samstarf við Evrópusambandið og ég vil taka sem dæmi Schengen-samstarfið. Nú hafa ýmsar þjóðir bæði innan Evrópusambandsins og utan, svo sem Norðmenn, ákveðnar efasemdir uppi um Schengen-samstarfið og í ræðum á Alþingi hafa líka komið fram efasemdir um hversu gott sé fyrir Íslendinga að vera í því. Ég held að nauðsynlegt sé fyrir okkur að taka til alvarlegrar endurskoðunar hvort við eigum að vera áfram í samstarfinu eða gera einhverjar breytingar á því. Það kann að vera að á sínum tíma hafi verið einhver rök fyrir því að fara þessa leið en reynslan hefur hins vegar kennt okkur að samstarfið þarf að endurskoða. Ég vil hvetja til þess að það verði gert.

Í umræðunni sem lýtur að EES-gerðum og samskiptum okkar við Evrópusambandið er ekki hægt að sleppa tækifærinu og nefna hluta af EES-samningnum og innleiðingu tilskipunar er hefur snert okkur Íslendinga mjög mikið undanfarið og það er tilskipunin um innstæðutrygginguna og Icesave-málið allt saman. Það hefur sýnt sig að sú tilskipun sem við innleiddum var meingölluð. Nú hefur Evrópusambandið verið á harðahlaupum að reyna að bjarga sér frá því að önnur ríki en Ísland láti sverfa til stáls gagnvart þeirri tilskipun. Við þekkjum öll umræðuna um það í Írlandi og Grikklandi og Portúgal og víðar og nú nýlega á Spáni, að almenningur hefur sagt: Af hverju fórum við ekki íslensku leiðina? Íslenska leiðin fólst vitanlega í því að láta kröfuhafana, stóru þýsku og frönsku bankana, bera tjónið. En Evrópusambandið hefur hins vegar ákveðið að láta almenning í þessum löndum bera tjónið. Veittar eru fyrirgreiðslur til ríkjanna í formi neyðarlána sem koma svo aftur beint til baka inn í sjóði bankanna eða þeirra sem eiga kröfur á hendur ríkjunum sem eru hinir sömu bankar eða aðilar og lánuðu þessum ríkjum. Þannig tekur Evrópusambandið hagsmuni fjármálastofnananna, stóru bankanna, fram yfir hagsmuni almennings. Við höfum vitanlega séð að hið sama var gert á Íslandi og hefur verið opinberað í skýrslu fjármálaráðherra um endurreisn bankakerfisins. Sú skýrsla hlýtur að verða eitt aðalumræðuefni á Alþingi í næstu viku.

Af hverju er verið að nefna þetta? Vegna tengingarinnar við EES-samninginn og tilskipun varðandi tryggingarsjóðinn. Augljóst er að tengingin er til staðar og hlýtur að vekja alla, eða að minnsta kosti einhver okkar, til umhugsunar um hvort einhver mistök hafi verið gerð af okkur hálfu við að innleiða tilskipunina eins og hún var. Við nýttum hins vegar rétt okkar til að standa á henni og spurning hvort það hafi verið mistök af hálfu Evrópusambandsins eða ríkja innan þess að túlka hana ekki eins og Íslendingar gera, þ.e. eins og hún stendur.

Hér hefur verið minnst á ýmsar tilskipanir eins og t.d. þjónustutilskipunina en ég ætla ekki að hætta mér út í það, ég þekki það mál ekki alveg nógu vel. Ég held hins vegar að komið sé í ljós sem sumir hv. þingmenn hafa nefnt, þar á meðal hefur hv. þingmaður Vigdís Hauksdóttir nefnt það mjög oft, að taka þarf til endurskoðunar vinnureglur okkar varðandi EES-mál, þ.e. reglur um þinglega meðferð EES-mála. Við þurfum að taka þær til endurskoðunar því ég hygg að við þurfum að beita þeim meðulum sem þar eru til fyrir þingið. Ég hef fengið yfirlit yfir heildarferil EES-mála, eins konar tímalínu yfir hvernig þessi mál ganga fyrir sig. Hér er tekið dæmi af ákveðnu máli sem tók 11 ár í meðförum allt frá því að það kom fram innan Evrópusambandsins. Ljóst er að frá upphafi er möguleiki á því að Alþingi sé vel upplýst um innihald og þess háttar. Ég held að við ættum í raun að setja okkur reglur og fela framkvæmdarvaldinu, utanríkisráðuneytinu, að upplýsa Alþingi og senda okkur á Alþingi lista yfir aðila sem fá tilskipanirnar til umsagnar og fá einnig umsagnir þeirra til utanríkismálanefndar svo að þingið geti metið sjálfstætt hvernig hagsmunaaðilar sem skila inn umsögnum meta það sem á að innleiða.

Virðulegi forseti. Það kann að vera að rétt sé sem kom fram hjá hæstv. utanríkisráðherra, að betra sé fyrir Íslendinga að vera nær ákvarðanatökunni. Við hæstv. utanríkisráðherra erum hins vegar mjög ósammála um hvort þá sé betra að ganga í Evrópusambandið eða beita einhverjum öðrum aðferðum. Vitanlega hefur margoft komið fram að sá sem hér stendur telur algera fásinnu að ganga í Evrópusambandið.

Athyglisvert er að sjá og heyra þegar ráðherrar tala um að Ísland geti betur gætt hagsmuna sinna með því að vera innan dyra Evrópusambandsins þegar við vitum það að árið 2014 mun atkvæðavægi innan Evrópusambandsins og Evrópuþingsins breytast. Allt útlit er fyrir að Ísland verði með undir 1% atkvæðavægi. Það mun jafnframt breytast, en ég hef það ekki skráð hjá mér, hvernig meiri hlutinn geti tekið ákvarðanir út frá atkvæðavægi. Þá veltir maður fyrir sér hvað þetta innan við 1% mun hafa að segja gagnvart hinum 99%. Ekkert. Það er og verður áfram þannig að stóru ríkin, stóru löndin, Þýskaland og Frakkland, munu ráða lögum og lofum.

Þingsályktunartillagan sem nú er til umfjöllunar er afsprengi, ef má orða það þannig, þjónustutilskipunarinnar og lýtur að rafrænni málsmeðferð eða rafrænum undirskriftum. Þetta er væntanlega hugsað til að einfalda viðskipti og samskipti en um leið að koma á eftirliti með þeirri starfsemi eða þeim aðferðum sem þarna eru notaðar. Það kemur líka fram, eins og við höfum séð oft áður, að þetta kallar á lagabreytingar hér á landi. Ég verð að segja að þegar við tökum til umfjöllunar ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar og reglur sem taka á upp, þurfa um leið að liggja fyrir drög að lagafrumvörpum þannig að við getum lesið þetta saman og séð hvaða breytingar þarf að gera. Það yrðu í raun bara vandaðri og betri vinnubrögð. Ég er ekki að segja að þetta hefði einhver áhrif á niðurstöðuna en ég hef hins vegar trú á að það gæti leitt af sér betri vinnubrögð.

Ég nefndi áðan að endurskoða þyrfti reglur um meðferð EES-mála. Ég held að það sé mjög mikilvægt. Ég held að við þurfum að auka yfirsýn Alþingis á þessi mál. Ég er ekki að tala fyrir því að menn veiki EES-samninginn eða segi sig frá honum eða eitthvað slíkt, alls ekki. Ég tók hins vegar eftir því fyrir nokkru að sagt var á evrópskri vefsíðu sem fjallar um pólitík innan Evrópusambandsins og flytur þaðan fréttir, að mögulega væri áhugi innan Evrópusambandsins að hægja á frekari stækkun en fjölga frekar ríkjum sem eiga aðkomu að sambandinu í gegnum EES-samninginn eða í gegnum slíka samninga. Nýlega fréttum við að Svisslendingar vilja gjarnan auka samskipti sín við Evrópusambandið á sviði viðskipta og þess háttar en þeim fjölgar mjög sem eru á móti því að Sviss gangi inn í Evrópusambandið. Ég held að Íslendingar ættu að hætta þessu brölti með inngöngu í Evrópusambandið en leita leiða til að styrkja EES-samninginn með því að fjölga þeim ríkjum sem að honum koma og leita jafnframt að sjálfsögðu eftir samskiptum og viðskiptum við önnur ríki.

Áðan var nefnt í tengslum við þingsályktunartillöguna sem lýtur að rafrænum undirskriftum og einföldun á viðskiptum að Evrópusambandslöndin eru stærsta markaðssvæði okkar. Ekki ætla ég að deila um það en ég held hins vegar að tækifærin fyrir Íslendinga séu jafnvel á öðrum stöðum þar sem eru vaxandi og stækkandi efnahagssvæði og efnahagsveldi. Þar vil ég nefna Asíu, Kína sérstaklega. Það má nefna Indland og ríki Suður-Ameríku, t.d. Brasilíu, þar sem eru mikil tækifæri. Við þingmenn og kannski ekki síst ríkisstjórnin verðum að átta okkur á því að heimurinn er örlítið stærri en Evrópusambandið. Ég er ekki að segja neitt um að við ættum að slíta stjórnmálasamskiptum við Evrópusambandið eða eitthvað slíkt. Við eigum hins vegar að passa okkur á því að loka okkur ekki neins staðar inni og horfa á tækifærin alls staðar sem þau eru.

Ýmislegt annað væri forvitnilegt að ræða í sambandi við EES-reglur og innleiðingar á þeim. Ég hef hins vegar í hyggju að geyma það þar til síðar. Við þurfum að fara yfir þetta ferli. Við þurfum að skoða hvort hagur er í öllum þeim reglum sem við innleiðum í gegnum EES-samstarfið. Er farið of hratt? Ég tók dæmi um mál sem var 11 ár í ferli, erum við að taka inn mál sem við þurfum ekki að flýta okkur með? Ég held að það væri mjög eðlilegt að við reyndum að hafa betri yfirsýn yfir þetta.

Frú forseti. Tími minn er liðinn í þessari umferð og ég vil hvetja þingmenn til að fara mjög vel ofan í EES-málin því ég held að ekki sé vanþörf á því.