139. löggjafarþing — 134. fundur,  27. maí 2011.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 102/2010 um breytingu á X. viðauka við EES-samninginn.

544. mál
[12:22]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil upplýsa hv. þingmann um það að það var vel hlustað á þær ræður sem hér voru haldnar. Ég vildi hins vegar koma því á framfæri að það væri kannski ekki nóg, það þyrfti að skoða fleiri atriði. Það þyrfti til dæmis að skoða sérstaklega aðkomu þingsins að þeim álitsgerðum sem koma frá hagsmunaaðilum og slíkt. Ég veit ekki til þess að verið sé að skoða þess háttar varðandi endurskoðun á þessum reglum.

Hvað það varðar að ég teldi að ríkisstjórnin væri að koma með fleiri EES-reglugerðir hér í gegnum þingið þá sagði ég, í upphafi þess kafla í hinni stórkostlegu ræðu sem ég flutti, að það væri eingöngu tilfinning mín fyrir því, ég hefði engar sannanir fyrir því. En ef sú tilfinning er rétt er ljóst að það er vegna aðlögunar að Evrópusambandinu sem ríkisstjórnin beitir þessari hraðferð.