139. löggjafarþing — 134. fundur,  27. maí 2011.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 102/2010 um breytingu á X. viðauka við EES-samninginn.

544. mál
[12:27]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla ekki að fara í efnislega umræðu um umsóknarferlið. Sú ákvörðun var tekin af lýðræðislega kjörnu þingi. Við sjálfstæðismenn vildum fara aðra leið en vorum ekki studd til þess af öðrum flokkum. Sú tillaga okkar, um þjóðaratkvæðagreiðslu, var felld hér á þingi strax í upphafi, þ.e. að þjóðin hefði bæði upphafs- og lokaorðið. Sú tillaga var felld. Við verðum því einfaldlega að vinna eftir þeirri tillögu og niðurstöðu sem liggur fyrir þinginu, þ.e. að við erum í þessu aðildarferli. Stjórnmálaöflin eiga því að sameinast um að ná sem hagfelldustum samningi þannig að Íslendingar geti kosið um raunverulegan valkost þegar þar að kemur.

Ég vil hins vegar koma aftur að EES-samningnum og þeirri dínamík sem enn er í honum þó að hann hafi að einhverju leyti veikst, meðal annars vegna þess að við höfum ekki sinnt hlutverki okkar nægilega vel. Ég hef hins vegar miklar áhyggjur af því hvernig gjaldeyrishöftunum vindur fram. Nú ákváðum við á sínum tíma að vera með gjaldeyrishöft í skamman tíma, en eins og fram hefur komið er ríkisstjórn vinstri manna að festa þau til lengri tíma sem er að mínu mati í (Forseti hringir.) algerri andstöðu við EES-samninginn. Hver er skoðun hv. þingmanns á gjaldeyrishöftunum?