139. löggjafarþing — 134. fundur,  27. maí 2011.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 102/2010 um breytingu á X. viðauka við EES-samninginn.

544. mál
[12:31]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin. Ég var dálítið hugsi þegar hæstv. utanríkisráðherra lét þessi orð falla, að hann gæfi svo sem ekki mikið fyrir þá breytingu sem hefði orðið. Ég hafði bundið miklar vonir við hana og maður sér klárlega og greinilega breytingu á því hvernig þinglegri meðferð EES-mála er háttað.

Þá langar mig að spyrja hv. þingmann um það sem kom fram í umræðunni áðan: Væri hugsanlega skynsamlegra fyrir okkur að nýta eitthvað af þeim fjármunum sem við erum að nota í Evrópusambandsumsóknina til að styrkja stöðuna betur við undirbúning mála og hafa þar frekari áhrif en við höfum í dag þó að við höfum þar fulltrúa frá framkvæmdarvaldinu? Hvernig hugnast hv. þingmanni að taka hluta af þeim fjármunum sem fara í Evrópusambandsumsóknina og nýta þá frekar til að berjast fyrir hagsmunum okkar á fyrri stigum við upptekt á EES-tilskipunum?