139. löggjafarþing — 134. fundur,  27. maí 2011.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 102/2010 um breytingu á X. viðauka við EES-samninginn.

544. mál
[13:01]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður kemur hér inn á grundvallarmál; að innleiða tilskipanir rétt. Staðreyndin er sú að á vettvangi Evrópusambandsins eru allir að lobbía. Oftar en ekki eru tilskipanirnar loðnar og opnar vegna þess að margir hafa viljað koma hagsmunum sínum að. Augljóst er, og það hefur komið fram í umræðu hjá hv. viðskiptanefnd, að viðskiptaráðuneytið hefur t.d. ekki komið að málum á fyrstu stigum þegar þau voru í undirbúningi og það hefur mér fundist vanta. Þegar ég var formaður þingmannanefndar EFTA reyndi ég að koma því skipulega áleiðis til hlutaðeigandi aðila hvaða tilskipanir væru í farvatninu því að á því stigi er best að koma að þeim. Mér hefur fundist vanta að við förum gaumgæfilega yfir þetta og sjáum hætturnar.

Hv. þingmaður vísaði í ákveðnar tilskipanir eða lög sem byggð eru á tilskipunum sem við fjöllum um í hv. viðskiptanefnd. Þetta svið höfum við augljóslega vanrækt á undanförnum áratugum, við höfum ekki áttað okkur á hættunni þar og ekki áhættugreint þær tilskipanir sem við höfum tekið yfir. Skýrasta dæmið er auðvitað gamla innstæðutryggingartilskipunin. Það er alveg augljóst að hana áhættugreindu menn ekki. Tillaga kom frá hv. þm. Ögmundi Jónassyni og Jóhönnu Sigurðardóttur um að vera ekki með 20 þús. evrur heldur ábyrgjast allt saman. Ég veit ekki betur en að allir þingmenn Samfylkingarinnar og Vinstri grænna hafi greitt þeirri gölnu tillögu atkvæði sitt. Það hefði haft slíkar afleiðingar fyrir íslenska þjóð að maður vill ekki hugsa til þess.