139. löggjafarþing — 134. fundur,  27. maí 2011.

ríkisframlag til bankanna.

[13:40]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég tel að það sé nauðsynlegt að halda til haga því rétta í þessu máli, staðreyndum málsins. Það er alveg rétt að hlutafjárframlag ríkissjóðs er miklu minna en ráðgert hafði verið, sennilega nálægt 250 milljörðum lægra en upphaflegar áætlanir gerðu ráð fyrir. Þessi lægri skuldsetning ríkissjóðs vegna þessarar niðurstöðu hefur leitt til þess að við erum að tala um allt að 45 milljarða lægri vaxtagjöld árið 2009 og 2010 en ella hefði orðið ef við hefðum þurft að reiða fram þá 385 milljarða sem upphaflega stefndi í. Hv. þingmaður er hér að blanda saman við lausafjárfyrirgreiðslu Seðlabankans sem er hluti af eðlilegri starfsemi bankans og hefði að öllum líkindum komið til hvort sem ríkið ætti bankann eða lánardrottnarnir.

Er þessi lausafjárfyrirgreiðsla Seðlabankans ekki af svipuðum eða sama toga og fyrirgreiðsla fyrrverandi seðlabankastjóra Davíðs Oddssonar þegar við töpuðum um 300 milljörðum rétt fyrir hrun vegna ótraustra ábyrgða? Nú er þó um að ræða traustar ábyrgðir og við erum að tala um að það sé verið að blanda saman hlutafjárframlögum og lausafjárfyrirgreiðslu sem er allt annað. Umræðan í þessu máli og líka hin, að við hæstv. fjármálaráðherra höfum með einhverjum hætti blandað okkur í verðmat bankanna, er alveg fráleit, að einhverjum detti í hug að einstaka ráðherra geti upp á sitt eindæmi kveðið upp úr um verðmat bankanna. Það er allt undir umsjón og eftirliti Fjármálaeftirlitsins og niðurstaðan var gerð með samþykki þess, vitund og vilja.