139. löggjafarþing — 134. fundur,  27. maí 2011.

framkoma stjórnvalda gagnvart félögum Falun Gong 2002.

[13:47]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Forseti. Það er alla vega alveg víst að þetta mun ekki endurtaka sig á meðan þessi ríkisstjórn situr. Það er alveg ljóst að sama hver kemur til Íslands þá verður engum meinaður sá réttur að tjá sig eða koma skoðunum sínum á framfæri svo fremi sem um sé að ræða samtök sem ekki eru á lista, eins og Hells Angels, yfir alþjóðleg glæpasamtök. Þetta er mál sem, ef af yrði einhvern tíma, hugsanlega mundi koma til sameiginlegra kasta minna og hæstv. innanríkisráðherra og það liggur ljóst fyrir hvernig við mundum taka á því.

Hv. þingmaður spyr mig síðan hvort ekki sé kominn tími til að biðja þá afsökunar sem fyrir þessu urðu. Það kann vel að vera. Ég get fyrir hönd íslensku ríkisstjórnarinnar héðan úr þessum stól beðið þá sem þá komu og urðu fyrir brotum af þessu tagi afsökunar. Ég hef marglýst því yfir, bæði sem ráðherra af einu tilteknu tilefni og líka á meðan ég var stjórnarandstöðuþingmaður, að þarna hafi menn farið út fyrir það sem heimilt var. Mér fannst að öllu leyti mjög ranglega að þessu farið. Það er rétt sem hv. þingmaður sagði að þarna var farið eftir einhverjum nafnalista sem ég hef ekki hugmynd um hvaðan var kominn. En það er klárt að slíkur nafnalisti er ekki til í dag og engir slíkir listar. Ég get því bara sagt, til að ljúka því í eitt skipti fyrir öll, að ég er reiðubúinn fyrir hönd íslensku ríkisstjórnarinnar að biðja þá afsökunar sem fyrir urðu á sínum tíma.