139. löggjafarþing — 134. fundur,  27. maí 2011.

endurútreikningur gengistryggðra lána.

[13:57]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Í svörum fyrr í þessum fyrirspurnatíma held ég að hæstv. forsætisráðherra hafi sýnt það hvernig á að spila pólitík, þessa þreyttu, gömlu. Hafa einfaldar reglur, aldrei að axla ábyrgð, helst að kenna öðrum um og viðurkenna aldrei mistök eða vankunnáttu.

Ég verð að segja að það kviknaði smávonarglæta þegar maður heyrði í morgun að kannski væru ekki allir ráðherrar á sömu línu. Hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra sagði í viðtali á Bylgjunni þar sem rætt var um gengistryggð lán, með leyfi forseta:

„Ég er sjálfur eins og hálfviti þegar ég er að reyna að átta mig á þessum útreikningsaðferðum.“

Það er nú þannig að bankarnir eru með her af viðskiptafræðingum og lögfræðingum og virðast stundum lifa á því að flækja mál fyrir almenningi. Hæstv. ráðherra er hins vegar lögfræðingur og er með töluvert af starfsfólki á launum til að útskýra flókna hluti fyrir sér. Ég mundi því gjarnan vilja heyra frá hæstv. ráðherra hvernig hann heldur að almenningi líði ef honum líður eins og hálfvita.

Hlutverk okkar hlýtur að vera að vernda neytendur og almenna borgara og tryggja að farið sé að lögum. Það er mitt mat að hlutverk hæstv. ráðherra og skylda hans í sínu hlutverki sé að tryggja að við séum að vernda neytendur, en ekki að gefa bönkunum verkfæri til að halda áfram að koma illa fram við þá sem við eigum að vera að sinna og þjóna.

Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra í von um að fá skýr og góð svör: Ætlar hæstv. ráðherra að gefa út reglugerð sem segir til um á einfaldan hátt hvernig reikna eigi þessi lán þannig að bæði ég og hann getum skilið hvernig á að reikna þetta út? Ætlar hæstv. ráðherra að svara mér hvers vegna það var ekki gert strax? Og er einhver von til þess að ég fái svör við (Forseti hringir.) sex spurningum sem hafa beðið hér í þinginu í tvo mánuði um þessi atriði?