139. löggjafarþing — 134. fundur,  27. maí 2011.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 102/2010 um breytingu á X. viðauka við EES-samninginn.

544. mál
[14:07]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Við höldum nú áfram þar sem frá var horfið fyrir hádegishlé og ræðum um ákvörðun EES-nefndarinnar um breytingar á viðauka við EES-samninginn sem fjallar um almenna þjónustu sem er eitt af þeim sjö málum sem rædd eru hér, þ.e. EES-tilskipunum.

Í skýrslu þingmannanefndar um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis kom fram ákveðin gagnrýni á aðferðina við innleiðingu tilskipana frá Evrópusambandinu í gegnum EES-samninginn. Síðan hefur verið breytt um vinnubrögð og menn gera þetta á annan veg en gert hafði verið fram að þeim tíma. Ég stóð í þeirri trú að það þýddi mun betri og vandaðri vinnubrögð. Ég var því dálítið hugsi yfir því sem hæstv. utanríkisráðherra sagði að málum væri þannig háttað að við þyrftum að gleypa allt blóðhrátt, svo að ég vitni orðrétt í ráðherrann, sem kemur frá Evrópusambandinu í gegnum tilskipanir, í gegnum EES-samninginn.

Ég var dálítið hugsi eftir þessi orð hæstv. ráðherra. Í framhaldi af því varð ákveðin umræða sem nokkrir þingmenn tóku þátt í. Þar ræddu menn hvort við ættum að fara inn á sömu braut og Norðmenn sem eru með stærra batterí, ef ég mætti orða það þannig, eða sterkari stjórnsýslu, þar sem tekið er á þessum tilskipunum áður en þær fara endanlega í gegn, þ.e. ekki er verið að bregðast við þeim þegar þær eru orðnar að veruleika.

Þó að við séum að sjálfsögðu með starfsfólk til að fylgjast með þessu á vegum hvers ráðuneytis fyrir sig er maður dálítið hugsi yfir þessu, og sérstaklega í ljósi Icesave-málsins, sem er ekkert smámál, sem við höfum verið að fjalla um hér í rúm tvö ár. Þar er uppi ágreiningur á milli okkar og Eftirlitsstofnunar EFTA, um það hvort við höfum innleitt tilskipunina um innstæðutryggingarnar rétt. Þá hlýtur maður að spyrja sig að því, sérstaklega í ljósi þess hversu viðamikið og erfitt það mál hefur verið, og hve gríðarlegar afleiðingar það hefur haft, hvort við höfum vandað ferlið nægilega mikið. Ég tek hins vegar fram að að mínu mati er búið að breyta vinnubrögðunum, þó að ég ætli ekki að fullyrða alveg um það, frá því sem áður var. Það var eftir að skýrsla þingmannanefndarinnar um rannsóknarskýrslu Alþingis kom fram. Ég hef alla vega upplifað það þann stutta tíma sem ég hef setið hér að þinglegri meðferð á EES-málunum hefur verið breytt.

Hæstv. utanríkisráðherra sagði hins vegar að það væri ekki nema eitt að gera, við þyrftum þá hreinlega að ganga í Evrópusambandið ellegar að gleypa þessar tilskipanir blóðhráar eins og hann orðaði það. Hann taldi þar með að þá gætum við staðið vaktina og komið betur að málum. Það er eflaust rétt hjá hæstv. ráðherra, þá komumst við að sjálfsögðu nær ákvarðanatökunni í málinu, það er ekki deilt um það, ég deili alla vega ekki við hæstv. ráðherra um það. Ég er hins vegar dálítið hugsi yfir því vægi sem við fengjum á Evrópuþinginu. Það kom líka fram í máli formanns utanríkismálanefndar, hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar, þegar hann fór yfir þær breytingar sem orðið hafa á störfum Evrópuþingsins. Það hefur styrkst en vægið sem við værum með þar inni væri í kringum 1% miðað við fjölda þingfulltrúa. Ég er ekkert að alhæfa um að samspil sé á milli prósentutölu og vægis í ákvarðanatöku, það má ekki skilja orð mín þannig. En ég er dálítið hugsi yfir þessu ferli og þetta er hlutur sem þarf að breytast.

Mér var líka tjáð það í hádegisverðarhléinu af hv. þm. Eygló Harðardóttur, sem situr í viðskiptanefnd, að þangað væri að koma mál þar sem innleiðingar og tilskipanir hjá Evrópusambandinu í gegnum EES-samninginn hefðu verið með röngum hætti. Við erum því ekki með eitt afmarkað mál og deilur við Eftirlitsstofnun EFTA um innleiðinguna á innstæðutryggingunum, fleiri mál eru í farvatninu. Ég tel því mjög mikilvægt fyrir okkur að ræða hvort við þurfum að bæta vinnubrögðin enn meira en verið hefur. Það er að minnsta kosti mjög mikilvægt að mínu mati að sú umræða fari fram hvernig við getum staðið betur að því að innleiða þessar tilskipanir.

Oft er mikill hraði á störfum þingsins og mál eru afgreidd í miklum flýti og það hefur sannað sig í gegnum tíðina að oft hefði verið betra að vanda vinnubrögð enn frekar. Við höfum fengið mjög margar áminningar um það, hvort heldur sem það eru innleiðingar á tilskipunum eða hvað varðar hin almennu lög. Í gærmorgun, á fundi í hv. fjárlaganefnd, kom það til að mynda fram að hugsanlega væri ekki nægilega sterkur lagalegur grunnur undir það hvernig standa ætti að því að innheimta gjöld til að reka embætti umboðsmann skuldara. Það eru 500 milljónir en menn hafa áhyggjur af því að lagagrunnurinn sé ekki nægilega traustur fyrir innheimtu gjaldsins. Við þurfum að sjálfsögðu alltaf að vanda okkur við þennan feril.

Mig langar aðeins að koma inn á þá hugmynd sem var reifuð hér, um að við ættum hugsanlega að láta aðeins minna fé í umsóknina sjálfa og styrkja frekar stjórnsýsluna þannig að hún gæti komið að ákvarðanatökunni á fyrri stigum eða með meira afgerandi hætti. Það er reyndar mjög sérkennilegt, og maður verður oft hissa, þegar verið er að ræða um kostnaðinn við aðildarumsóknina, að þá er ekki verið að deila um tugi eða hundruð milljóna heldur um þúsundir milljóna. Ég veit ekki hvað er rétt og satt í því. Það er líka dálítið sérkennilegt þegar verið er að kalla eftir svörum — mér er það til að mynda mjög minnisstætt að þegar verið var að ræða fjárlög fyrir árið 2011 síðasta haust, á fundum í hv. fjárlaganefnd, var ég oft og tíðum að spyrja þá sem mættu, bæði ráðuneytisstjórana og eins þá sem sáu um fjármálastjórn ráðuneytanna, hver væri kostnaður viðkomandi ráðuneytis við aðildarumsóknina. Þá var oft, að mér fannst, frekar fátt um svör, sem fólust þó aðallega í því að einhverjir aðrir sem hefðu til þess tíma væru að vinna þetta og þar fram eftir götunum, rétt eins og þetta kostaði ekki neitt.

Mér er þó minnisstæðast svarið sem ég fékk frá fulltrúum sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis — nú bið ég hæstv. utaníkisráðherra að hlusta því að hann er sá eini sem er hér í salnum — (Utanrrh: Yfirgefur þig aldrei.) — aldrei, það er rétt sem hæstv. utanríkisráðherra segir; það mættu margir hæstv. ráðherrar taka hann sér til fyrirmyndar hvað varðar þátttöku í umræðum og veru í þingsal og á ég þá ekki við óundirbúnar fyrirspurnir eða þegar hæstv. ráðherrar mæla fyrir málum. Svarið var á þann veg að ekki væru eyrnamerktir neinir fjármunir á vegum ráðuneytisins í þetta enda væri það skýr skoðun hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að það ætti ekkert að standa í þessu og það eru svo sem engar nýjar fréttir. En ef ráðuneytið ætti að sinna þeim verkefnum sem því bæri þyrfti að gera ráð fyrir 50–60 milljónum. Þá er eðlilegt að maður spyrji: Hvernig stendur á því að verið er að leggja ákveðnar kvaðir á ráðuneytið án þess að fjármunir séu eyrnamerktir til þess? Og eru þá verkin unnin?

Mér var sagt að þau væru að sjálfsögðu unnin í ráðuneytinu en önnur verkefni yrðu þá að bíða á meðan, þ.e. það starfsfólk sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis sem ynni að aðildarumsókn að Evrópusambandinu yrði þá að leggja önnur mál til hliðar, og það segir sig eiginlega sjálft. Það þarf ekki að velta því lengi fyrir sér hvert hið augljósa svar er við því.

Þá er það líka mjög óþægilegt í allri þessari umræðu að forustumenn Bændasamtakanna hafi látið hafa það eftir sér að þeir efist um að ríkisstjórninni sé treystandi til að fylgja því nægilega vel eftir að verja hagsmuni landbúnaðarins í aðildarumsókninni. Það er því mjög bagalegt, virðulegi forseti, að kostnaðurinn skuli ekki liggja fyrir svo að menn þurfi ekki að draga það út með töngum, en þannig hefur mér oft og tíðum fundist það vera. Það er þá eðlilegra að fjármunir séu eyrnamerktir undir ákveðnum lið hjá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu, sama hver skoðun hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra er á aðildarumsókn að Evrópusambandinu. Það er alltaf ákveðin vinna sem það ráðuneyti og starfsfólk þess þarf að inna af hendi og eðlilegt að það sé eyrnamerkt því umsóknarferli sem um er að ræða.

Ástæða þess að ég er að rifja þetta upp er sú að töluvert miklir peningar fara í aðildarumsóknina að Evrópusambandinu og mikið er um að vera víða í stjórnsýslunni. Það er líka gott að rifja það upp þegar við ræddum aðildarumsóknina á sínum tíma. Það hefur komið fram í fréttum á undanförnum vikum að í það minnsta einn hæstv. ráðherra til viðbótar, hæstv. innanríkisráðherra, telur það hafa verið ákveðin mistök að samþykkja þessa aðildarumsókn. Hann er nú kominn með einhverja bakþanka. Í því sambandi er líka vert að hafa í huga allar þær kenningar sem uppi voru, af einstaka hv. þingmönnum, um hvernig staðið var að aðildarumsókninni, þ.e. að menn væru beittir ákveðnum þvingunum og brögðum sem ég get ekki fullyrt neitt um.

Ég minnist þess þegar hæstv. fjármálaráðherra ræddi þessi mál og sagði — við vitum hvernig flokkur hans fór fram í síðustu kosningabaráttu hvað það varðar að hann væri algjörlega á móti aðild að Evrópusambandinu en síðan skiptu menn um skoðun í því eins og allir vita — að auðvitað yrði þetta gert á þann veg að menn tækju erfiðustu málin fyrst, þ.e. sjávarútveginn og landbúnaðinn, og ef strax mundi steyta á þeim þyrfti ekki að eyða tíma og peningum í að ræða einhver minni mál. Eðlilegast væri að taka helstu ágreiningsefnin og vita hvort hægt væri að leiða þau til lykta. Gengi það ekki þyrfti ekkert að vera að eyða tíma, kröftum eða peningum í að halda áfram á þessari vegferð.

Mér finnst hins vegar að þetta sé að þróast á annan veg, þ.e. að menn ræði einhver smærri mál og geymi þessi stóru og ætli að ræða þau seinna. Manni sýnist það svona utan í frá. En þar sem ég sé að hæstv. utanríkisráðherra ætlar í andsvar við mig væri mjög gott ef hann færi betur yfir það hvernig þetta ferli er að hans mati.

Ég las fyrir nokkru grein í Bændablaðinu þar sem því var haldið fram að forsendan fyrir aðildarumsókninni væri brostin þar sem komið væri í ljós að ekki mundi fást varanleg undanþága fyrir flutning á lifandi dýrum. Það væri ágætt ef hæstv. utanríkisráðherra færi aðeins yfir það líka. Eftir því sem forustumenn Bændasamtakanna, sem eru nokkuð glöggir menn, sögðu væri það fyrirséð, búið væri að láta á það reyna í rýnivinnunni, að ekki fengist varanleg undanþága á því. Auðvitað þekkjum við öll hverjar afleiðingarnar gætu orðið af því ef það yrði, þá mundum við að sjálfsögðu aldrei ganga í Evrópusambandið. Þeir töldu, þeir forustumenn sem skrifuðu þessa grein, að þar með væru ákvæði sem fylgdu með í aðildarumsókninni og þeir skilmálar sem þar voru settir fram brostnir, það væri þá komið út fyrir samningsumboðið. Þeir töldu því fyrirséð að ekki þyrfti að ganga lengra heldur gætum við snúið okkur að því að hætta þessu ef það lægi fyrir. Það væri ágætt að fá viðbrögð hæstv. utanríkisráðherra við því.

Í framhaldi af þessari umræðu, og líka út frá því sem við höfum séð á undanförnum vikum, mánuðum og árum — og er ekki að gerast í einu máli eða tveimur heldur nokkrum — að gerðar eru athugasemdir við það hvernig við höfum staðið að innleiðingu á tilskipunum frá Evrópusambandinu í gegnum EES-samninginn. Við höfum fengið það til baka að við höfum staðið vitlaust að því.

Ég tel mikilvægt að við tökum þá umræðu á rólegum nótum og á þann veg að við náum að bæta vinnubrögðin, en ég tel sjálfur að breyting hafi orðið þar á. Alla vega er farið að fara með málin á annan hátt. Þá er líka gott fyrir okkur að ganga úr skugga um að við séum þá ekki að tvívinna hlutina. Ég sit í hv. samgöngunefnd og þar kemur eitt mál strax upp í huga minn sem byggðist á afstöðunni og þeim upplýsingum sem við fengum innan úr ráðuneytinu — sem er í sjálfu sér ekkert óeðlilegt, ég er ekki að segja það. En þá þarf líka að ganga úr skugga um að við séum ekki að tvívinna sama hlutinn í stjórnsýslunni og í þingnefndunum heldur vinnum með markvissum hætti — við hljótum öll að vera sammála um það, hvar sem við stöndum í pólitík — þannig að hlutirnir séu með þeim hætti að við séum vel upplýst um það sem við erum að gera og getum þá brugðist við.

Við þekkjum jú mörg dæmi um það í gegnum tíðina, til að mynda með raforkulögin og annað, þar sem menn voru ekki nægilega vel á verði og hefðu getað bent á sérstöðu Íslands í þeim málum. Að mínu viti hefðum við getað fengið undanþágu og ekki þurft að ganga jafnlangt í innleiðingunni og gert var. En eins og menn þekkja er það erfitt þegar búið er að innleiða tilskipunina. Það er þá aðalatriði málsins að við vöndum vinnubrögðin. Ég er hugsi, eins og ég sagði áðan, yfir orðum hæstv. utanríkisráðherra um að þó að verið sé að vísa þessu til þingmannanefnda sé það hugsanlega ekki nægilegt, við þyrftum að gera þetta á annan hátt. Það situr eftir í umræðunni, alla vega í mínum huga, við afgreiðslu þessara mála núna.