139. löggjafarþing — 134. fundur,  27. maí 2011.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 102/2010 um breytingu á X. viðauka við EES-samninginn.

544. mál
[14:25]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það situr síst á mér að taka þátt í þessu málþófi Sjálfstæðisflokksins, auðvitað er þetta ekkert annað en málþóf en það er allt í lagi, allir hafa rétt til þess að tala eins lengi og þeir vilja. Það eru nokkur atriði sem ég vil þó svara. Ég get ekki svarað öllum þeim fjölmörgu spurningum sem hv. þingmaður beindi til mín um umsóknarferlið en ég hef nýlega gert það í langri umræðu um utanríkismál og í skýrslu, 96 blaðsíðna, sem liggur á borði hv. þingmanns.

Eitt ætla ég að segja varðandi hæstv. innanríkisráðherra. Hér voru höfð ákveðin ummæli eftir honum og það er þá rétt að allt fylgi með í því. Hæstv. innanríkisráðherra sagði það algjörlega skýrt að hans afstaða væri að þjóðin ætti að fá að kveða upp úr um aðild, já eða nei, og hann mundi styðja það. Hann sagði ekki að hann mundi liggja dauður ella en innvolsið í honum er þannig að hann stendur alltaf við það sem hann segir.

Nú ætla ég að trúa hv. þingmanni fyrir reynslu minni af því að vera utanríkisráðherra og stýra stóru ráðuneyti. Frá því að ég hóf þar störf hef ég fyrir utan það að halda fram öllum þeim verkefnum sem áður voru þar og engin niður skorið bætt við tveimur. Annars vegar er umsóknarferlið, og hins vegar hafa norðurslóðamál verið gerð að forgangsmáli. Í þetta tvennt hefur verið settur mikill kraftur. Þetta hefur okkur tekist án þess að bæta við starfsmönnum. Það er sem sagt hægt að gera þetta með því að fara að ráðum fjárlaganefndar að hagræða og hressa rækilega upp á áherslur.

Hv. þingmaður talaði um það mikla starf sem væri unnið í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu. Það er alveg rétt sem hann segir, auðvitað kostar umsóknarferlið andvirði þeirrar vinnu sem lögð er í það. Hv. þingmaður talaði hér um marga tugi milljóna og vísaði þá í munnlegt svar eða ræðu hjá hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Það vill svo til að hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur líka metið þetta sjálfur í skriflegu svari til hv. þm. Gunnars Braga Sveinssonar. Þar kemur í ljós að það sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið hefur af höndum innt í þessu máli samsvarar (Forseti hringir.) tæplega einum starfskrafti, það er ekki meira en það. Og það er ekki utanríkisráðherra sem leggur þessar upplýsingar fram heldur hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.