139. löggjafarþing — 134. fundur,  27. maí 2011.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 102/2010 um breytingu á X. viðauka við EES-samninginn.

544. mál
[14:28]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir andsvarið. Mig langar að byrja þar sem hæstv. ráðherra endaði þegar hann minnti mig á það svar sem hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hafði gefið hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni um að þetta væri tæpt stöðugildi. Ég sagði í ræðu minni áðan og hef sagt það áður úr þessum stól og sagði það hér við fjárlagagerðina, að upplýsingarnar sem við fengum í fjárlaganefnd væru þær að það þyrfti, og það var ekki nákvæm tala, 40–50 milljónir, ef ég man rétt, frekar en 50–60. Það var á þessu bili. En ég veit að það er langt umfram tæpt stöðugildi sem kostnaðurinn er. Það voru svörin. Þess vegna tel ég svo mikilvægt — og ég er ekki að gera athugasemdir við það þó að kostnaður ráðuneytisins sé mikill við að fara í þessa aðildarumsókn, það má ekki skilja það svo — aðalatriðið er að verkin séu unnin með þeim hætti, sem ég efast ekki um að starfsfólk ráðuneytisins geri, að það sé uppi á borðum hver hinn raunverulegi kostnaður er. Þó svo að hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sé á móti aðildarumsókninni, sem eru engar fréttir, á það ekki þar með að vera þannig að ekki sé hægt að upplýsa hver hinn raunverulegi kostnaður er.

Ég velti því fyrir mér, ef þetta er svona, að á fyrstu stigum málsins skuli ekki þurfa nema innan við eitt stöðugildi í þessu ráðuneyti þar sem þessir tveir stærstu málaflokkar eru, um það er ekki deilt, tveir stærstu og mikilvægustu og erfiðustu málaflokkarnir í umsóknarferlinu eru, að til þess skuli ekki þurfa nema innan við eitt stöðugildi. Það kallar kannski á umræðu um það sem ég kom inn á í ræðu minni hér, og vitnaði til fulltrúa Bændasamtakanna sem kom fram í Bændablaðinu , að menn hefðu efasemdir um að því væri nægilega sinnt að halda utan um umsóknina. Hugsanlega eru þeir aðilar að draga (Forseti hringir.) ranga ályktun einmitt út frá því svari sem hæstv. utanríkisráðherra benti á.