139. löggjafarþing — 134. fundur,  27. maí 2011.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 102/2010 um breytingu á X. viðauka við EES-samninginn.

544. mál
[14:30]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil leggja áherslu á að þetta er ekki mitt mat á því atgervi sem til er varið í þessu tiltekna ráðuneyti, þetta er mat ráðherrans. Ég þekki ekki innviði þess ráðuneytis en svona svaraði hann spurningu hv. þm. Gunnars Braga Sveinssonar.

Það eru þrír toppar í þessu ferli. Hinn fyrsti þegar menn urðu að leggja fram mörg þúsund blaðsíður af svörum í upphafi. Síðan var það rýnivinnan. Hvoru tveggju þessu er lokið. Fram undan eru samningarnir sjálfir. Þar verður örugglega sérstakur toppur líka.

Ég taldi hugsanlegt og sagði við þingið á sínum tíma að það gæti verið að ég mundi þurfa að koma til þingsins og biðja um aukið fjármagn til að ráða fleiri starfsmenn til að sinna þessu. Það hefur ekki reynst nauðsynlegt hingað til og ég tel ekki líklegt að það verði úr þessu. Ég skal þó ekki algjörlega loka fyrir það en mér sýnist að það sé ekki þannig.

Að því er sjálfan mig varðar og mitt ráðuneyti hef ég á sama tíma bætt við nýjum verkefnum, sinnt öllum hinum sem fyrir voru og ég hef gert það með því að hagræða. Ég hef gert það með því að raða til mönnum í ráðuneytinu og það hefur tekist. Ég held líka að það sem skipti máli í þessu sé það sem kom fram undir lok ræðu hv. þingmanns áðan og líka í hinni fyrri ágætu ræðu hans þar sem hann sagði: Það verður alla vega að vera tryggt að þetta komi ekki niður á öðrum verkefnum. Og mér finnst það bara allt í lagi að hv. þingmaður, sem er duglegur í aðhaldshlutverki sínu og situr í fjárlaganefnd, gangi úr skugga um það með einhverjum hætti. Eru einhver verkefni sem hafa að hornrekum orðið vegna þessa? Ekki í mínu ráðuneyti, mér er ekki kunnugt um það. Ef svo er er það alla vega ekki í þeim mæli að stjórnkerfið hafi beðið einhvern stórkostlegan hnekki af og ég þekki það ekki. (Forseti hringir.) Gæti ég haft frekari ræður um kenningar mínar um hvað veldur þessu en þær verða að bíða seinni tíma þegar hv. þingmaður fer þá í utandagskrárumræðu um þetta eða beinir til mín fyrirspurnum. Hann er hér (Forseti hringir.) að tala um allt annað óskylt mál. Er það ekki, herra forseti? En við erum umburðarlyndir. (Gripið fram í.)