139. löggjafarþing — 134. fundur,  27. maí 2011.

staða íslenskrar tungu og íslensks táknmáls.

533. mál
[14:59]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Þetta er mikill gleðidagur. Við höfum fylgst með þessu máli fara langa leið hér í gegnum þingið, allt frá árinu 2003, ef ég man rétt, þegar Sigurlín Margrét Sigurðardóttir, sem þá var þingmaður, lagði það fram hér í þinginu og því hefur síðan verið fylgt eftir. Það var þess vegna mikið fagnaðarefni þegar ríkisstjórnin setti inn í stjórnarsáttmála sinn að gera þetta mál að lögum, þ.e. að lögfesta táknmálið og réttarstöðu þess. Ég fagna því þeim árangri sem höfum náð. Þetta hefur verið löng ganga en engu að síður ánægjuleg og margir hafa lært mikið á leiðinni.

Virðulegi forseti. Ég verð líka að segja að sú samstaða sem ég veit að ríkir um málið hér í þessum sal er dásamleg og mikilvæg. En við erum rétt að byrja, nú erum við búin að lögfesta grunninn. En við þurfum öll hér inni að standa saman að framkvæmd þessara laga og ég veit að svo verður. Innilega til hamingju með daginn, þingheimur allur, og allir þeir sem málið varðar.