139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

skýrsla um endurreisn bankanna.

[10:31]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Fyrir fáeinum dögum sá fjármálaráðuneytið ástæðu til að bregðast við blaðaumfjöllun um bankaskýrsluna svokölluðu sem hefur legið hér frammi og verður til umræðu síðar í vikunni. Það má segja að þessi skýrsla, sem hæstv. fjármálaráðherra lagði fram fyrir nokkrum vikum, sé eins konar skýrsla um hina síðari einkavæðingu íslenska bankakerfisins vegna þess að með setningu neyðarlaganna var bankakerfið í heild sinni komið í hendur ríkisstjórnarinnar í raun og veru.

Þrjú mál hafa verið efst á baugi í tengslum við alla bankaumræðu, í fyrsta lagi skuldaúrvinnslan fyrir heimilin og fyrirtækin. Þau mál hafa dregist úr hófi fram. Ég vona að við séum öll sammála um það í þessum sal.

Í öðru lagi hefur það auðvitað vakið mikla athygli hve mikill hagnaður bankanna hefur verið í þessari miklu efnahagslægð sem við erum í, vegna þess að hagnaðurinn er að svona miklu leyti borinn uppi af ofmetinni afskriftaþörf.

Í þriðja lagi, og það er eins og viðbót við það sem við höfum áður rætt hér, liggur það sem segir í þessari skýrslu um kostnað ríkisins og aðdraganda þess að samið var við kröfuhafana nú opinberlega fyrir. Það getum við rætt allt saman síðar í vikunni.

Ég ber það upp við hæstv. fjármálaráðherra hér í dag hvort ekki sé kominn tími til að viðurkenna að þetta er allt saman með allt öðrum hætti en að var stefnt og að málið í heild sinni sé í raun og veru eitt allsherjarklúður. Þegar kostnaðurinn er miklu meiri fyrir ríkið en okkur hefur hingað til verið sagt, þegar allur ávinningurinn af uppsveiflunni lendir hjá kröfuhöfunum, þegar skuldaúrvinnsla fyrirtækja og heimila hefur dregist svo úr hófi sem raun ber vitni og einkavæðingin fór fram án þess að við ræddum hana sérstaklega í þingsal, (Forseti hringir.) er þá ekki kominn tími til fyrir fjármálaráðherrann að horfast í augu við það að þetta í heild sinni er allt (Forseti hringir.) annað en að var stefnt?