139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

gjaldeyrishöft og fjármál ríkissjóðs.

[10:41]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Nú er það sem betur fer að gerast sem vonir voru vissulega bundnar við strax frá byrjun að að uppistöðu til muni búið, gamli Landsbankinn, ráða við skuldbindingarnar sem féllu til vegna innstæðna í útibúum bankans í Bretlandi og Hollandi. Á þeirri hugsun voru samningar frá byrjun grundvallaðir, (VigH: Rangt.) að nota eignir gamla Landsbankans (VigH: Rangt.) og takast þá frekar á við eftirstöðvar ef einhverjar yrðu. Það er dapurlegt að hv. þingmenn skuli ekki geta glaðst yfir því að þróunin að þessu leyti hefur verið mjög hagstæð allan tímann og að það eru yfirgnæfandi líkur á því að með eignasölu og öllum innheimtum á síðari hluti þessa árs verði endurheimtuprósenturnar komnar vel yfir 100%. (TÞH: Hvað með vextina sem …?) Það er gleðilegt og sýnir að það var rétt aðferð að leggja upp með að láta eignir gamla Landsbankans ganga inn á þetta frekar en að íslenska ríkið tæki eitt stórt heildarlán fyrir öllu saman og væri in solidum í ábyrgð fyrir því eins og upphaflegar hugmyndir voru um að leysa þetta mál. (Gripið fram í: Þið gerðuð …)

Hversu mikið það hefur kostað okkur í hagvexti og töpuðum fjárfestingum hversu lengi hefur dregist að leysa þetta mál er auðvitað ómögulegt að reikna út, (TÞH: Ríkisstjórnin …) en það tjón skyldi enginn vanmeta. Sannanlega tafðist framvinda samstarfsins við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn um að minnsta kosti níu mánuði vegna hins óleysta Icesave-máls með þeim afleiðingum sem við öll þekkjum, að við erum skemmra á veg komin í afnámi gjaldeyrishafta, erlendum fjárfestingum og mörgu fleiru en ella hefði átt að geta orðið. [Háreysti í þingsal.]

Frú forseti. Það er sagt að Íslendingar taki allt of mikið af róandi lyfjum en ef einhver einn klúbbur í landinu þyrfti að taka aðeins meira af þeim er það hv. alþingismenn. [Hlátur og kliður í þingsal.]