139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

gjaldeyrishöft og fjármál ríkissjóðs.

[10:45]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég held að við ættum að spyrja í leikslokum í þessu máli. (Gripið fram í: Um?) Við skulum átta okkur á því að lokakaflinn hefur ekki verið skrifaður. Er ekki hollt fyrir hv. þingmenn (Gripið fram í.) sem halda að þeir hafi höndlað sannleikann í málinu og séu í færum til að ráðast að öðrum að hafa þann fyrirvara á að við skulum þá vonast eftir farsælum endalokum á málinu í heild sinni þegar þar að kemur? (Gripið fram í: Hann kemur aldrei ef …) Þau eru ekki í húsi.

Þegar Ísland var að berjast í þessu máli á fyrri hluta árs 2009 var staða okkar allt önnur. Við vorum í engum færum til að semja um neinar greiðslur vegna málsins samtímis, (Gripið fram í: Hver tók …?) enda hefðu þær ekki fallið til fyrr en eftir 2016. Markmiðið var þá að tryggja langtímafjármögnun á þessum skuldbindingum að því marki sem þær yrðu einhverjar og ráða frekar við þær með því að setja þær inn í framtíðina. Þannig hefði ekki ein einasta króna farið úr ríkissjóði í fyrra, í ár og á næstu árum vegna þessa máls (Gripið fram í.) heldur var um framtíðarfjármögnun að ræða vegna þess að íslenska þjóðarbúið var árið 2009 ekki í neinni stöðu til að ábyrgjast neinar greiðslur. (Forseti hringir.) Við vorum á lista yfir þau tíu lönd sem voru líklegust til að fara á hausinn og eini gjaldeyririnn sem við höfðum var fyrsti skammturinn frá AGS. (Gripið fram í: Enda er það …)

Ég held að hv. þingmenn ættu, ef þeir hafa áhuga á málefnalegri (Forseti hringir.) umræðu um þetta mál en ekki þessum endalausa loddaraleik sem ástundaður (Forseti hringir.) hefur verið í þessu, að ræða málið út frá staðreyndum. [Háreysti í þingsal.]